Körfubolti

Hringdi upp á völl og spurði hvort að Jordan væri sýndur: „Bilun hversu mikill Jordan maður ég var“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Teitur Örlygsson gerði upp ferilinn sinn, bæði sem leikmaður og þjálfari, á Stöð 2 Sport í vikunni.
Teitur Örlygsson gerði upp ferilinn sinn, bæði sem leikmaður og þjálfari, á Stöð 2 Sport í vikunni. vísir/S2s

Teitur Örlygsson segir að Michael Jordan sé sinn uppáhalds körfuboltamaður allra tíma. Teitur fann ýmsar leiðir til þess að fylgjast með Jordan á sínum yngri árum.

Teitur settist niður með Rikka G í vikunni þar sem hann gerði upp ferilinn bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann fékk svo spurninga hver væri hans uppáhaldsleikmaður allra tíma og það lá ekki á svörum.

„Jordan. Þessu var fljótsvarað. Ég nánast dýrkaði hann. Það var vandræðalegt hversu mikið ég dýrkaði hann,“ sagði Teitur.

„Ég er svo heppinn að vera akkúrat á þessum tíma. Það var sjónvarpsstöð upp á velli hjá hernum og ég hringdi alltaf þangað til að spyrja hvaða leikir væru sýndir. Þeir voru ekki bara með leiki um helgar heldur einnig á fimmtudagskvöldum og þriðjudagskvöldum.“

„Ég hringdi og spurði hvaða leikur væri sýndur og ef það var Bulls-leikur þá fór ég upp eftir og ég veit ekki hvað ég sá marga leiki með þeim í beinni útsendingu. Marga af þessum risa stóru leikjum sá maður í beinni útsendingu.“

„Þess vegna er gaman að vera horfa á þessa heimildarmynd núna og það er mikil nostalgía í því. Ég var „obsessed“ og það var bilun hversu mikill Jordan maður ég var,“ sagði Teitur.

Klippa: Sportið í kvöld - Teitur um Jordan

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×