Fótbolti

Enn stefnt að því að Ísland mæti Englandi í haust

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í íslenska landsliðinu eiga að mæta stórþjóðum í Þjóðadeildinni í haust.
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í íslenska landsliðinu eiga að mæta stórþjóðum í Þjóðadeildinni í haust. VÍSIR/VILHELM

Enn stendur til að Ísland mæti Englandi, Belgíu og Danmörku í haust í Þjóðadeild UEFA í fótbolta karla þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi sett mótahald um alla Evrópu úr skorðum.

Þetta segja enskir miðlar á borð við The Telegraph og Daily Mirror. Landsliðsmótanefnd UEFA fundaði í dag og mun þar hafa rætt um möguleikann á að landsliðin leiki þrjá leiki í hverjum „landsleikjaglugga“ í haust, í stað tveggja áður. Ísland mun líkt og aðrar þjóðir í A-deild Þjóðadeildarinnar leika þrjá leiki á heimavelli og þrjá á útivelli, eða sex leiki alls, og hefur hingað til staðið til að leikið yrði í þremur gluggum, í september, október og nóvember. Fyrsti leikur Íslands er við England 5. september á Laugardalsvelli, ef ekkert breytist.

Óttast hefur verið að Þjóðadeildinni verði aflýst svo að hægt verði að skapa pláss í leikjadagskrá haustsins, til að mynda fyrir Meistaradeildina, en það er ekki stefna UEFA sem þarf einnig að koma fyrir EM-umspilinu sem Ísland tekur þátt í.

Til stóð að lokakeppni Þjóðadeildarinnar færi fram sumarið 2021 en nú hefur lokakeppni EM verið sett á frá 11. júní til 11. júlí. UEFA mun enn vonast til að úrslit Þjóðadeildarinnar ráðist á næsta ári, og þá væntanlega í október eða nóvember.


Tengdar fréttir

Mun UEFA drepa Englandsdrauminn í dag?

UEFA mun í dag funda með sínum 55 aðildarlöndum að sambandinu en þar mun evrópska knattspyrnusambandið fara yfir hvernig knattspyrnuárið mun líta út. Það hefur tekið miklum breytingum vegna kórónuveirunnar.

Efast um að landsleikirnir verði spilaðir í september

Victor Montagliani, varaforseti FIFA, óttast að ekki verði hægt að spila landsleiki í fótbolta fyrr en á næsta ári vegna kórónuveirunnar. Hann segir að ástandið sé afar erfitt og formsatriðið verði að klára deildirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×