Gagnrýni

Harðhausar kúka líka á sig

Heiðar Sumarliðason skrifar
Það eru ekki allir á eitt sáttir með kvikmyndina Capone.
Það eru ekki allir á eitt sáttir með kvikmyndina Capone.

Kvikmyndin Capone hefur aldeilis valdið úlfúð frá því hún kom út í síðustu viku, en ekki eru allir á eitt sáttir með gæði hennar og gildi. Hún fjallar um lokahnykkinn í ævi mafíuforingjans Al Capones, en vegna heilsubrests var honum sleppt úr fangelsi á undan áætlun, en Capone hafði sem ungur maður smitast af sárasótt, sem var á þessum tíma farin að leggjast á heilastarfsemi hans. 

Það er Josh Trank, sem eitt sinn var heitasti ungi leikstjórinn í Hollwood, sem hér heldur um stjórnartaumana, og er höfundur handrits og leikstjóri. Bretinn Tom Hardy fer svo með hlutverk Capones. 

Þau ykkar sem búist við því að sjá kvikmynd um þann Al Capone sem birtist í túlkun Roberts De Niros í The Untouchables, verðið klárlega fyrir vonbrigðum. Líklegast er að þeir gagnrýnendur og áhorfendur sem myndin hefur komið illa við hafi hreinlega ekki fengið það sem þeir töldu sig vera að borga fyrir. Kvikmyndin Capone er nefnilega töluvert meira í ætt við myndir Davids Lynch, heldur en t.d. The Untouchables og mafíumyndir Martin Scorseses. Til að átta sig á þessari úrvinnslu Tranks á efniviðnum þarf að kafa eilítið í fortíð hans.

Tom Hardy sem Al Capone.

Maðurinn sem dissaði eigin kvikmynd um frumsýningarhelgina

Það er nefnilega spurning fall hvors þeirra er áhugaverðara, mafíuforingjans Al Capones, eða leikstjórans Josh Tranks. Það voru skattsvik sem felldu Capone, á meðan það var Twitter-færsla sem felldi Trank. 

Tíst Tranks frá árinu 2015.

Fyrir þá sem ekki þekkja Trank, þá er hann maðurinn sem sturtaði eigin Hollywood-ferli í klósettið, með því að dissa opinberlega eigin kvikmynd, Fantastic Four, sömu helgi og hún var frumsýnd. Það var sem sagt ýmislegt sem átti sér stað bakvið tjöldin í þeirri framleiðslu og eftir að Trank hafði tekið upp og klippt sína eigin útgáfu af myndinni kom á daginn að framleiðendur hennar, 20th Century Fox, voru allt annað en sáttir við afraksturinn. Myndin var því tekin úr höndum Tranks, mikið endurskrifuð og skotin upp á nýtt, og eftir það var hann aðeins á tökustað til málamynda. Sú útgáfa kom svo út í ágúst árið 2015, og hann einn skrifaður sem leikstjóri hennar. Viðtökurnar voru vægast sagt hörmulegar og Trank hafður að háði og spotti á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þetta fór það mikið fyrir brjóstið á honum að hann setti færslu inn á Twitter þar sem hann í raun afneitaði þeirri útgáfu myndarinnar sem kom fyrir augu almennings. 

Þó hann hafi fljótlega fjarlægt Twitter-skrif sín var skaðinn skeður og færsla hans orðin fréttaefni á öllum helstu miðlum. Það sem tók við hjá Trank var algjört hrun, andlegt, sem og faglegt. Hann hefði allt eins getað verið með holdsveiki (eða taugasýfilis), það vildi enginn koma nálægt honum. Eftir að hafa haft heiminn í hendi sér, endaði hann allslaus, slippur og snauður. 

Við tók tímabil þunglyndis og einangrunar hjá leikstjóranum unga. Hjónaband hans fór í vaskinn, Hollywood hætti að hringja og allt í steik. Út frá þessum raunum var ekki furða að Trank hafi laðast að því tímabili í ævi Capones, þar sem hann var einangraður og vissi vart í þennan heim né þann næsta, talaði við ímyndaða vini og skeit í brækurnar. Nýlegt viðtal sem ég las við Trank staðfesti þennan grun minn, því hann fann einhverskonar samsömun í sjálfheldu glæpaforingjans. 

Josh Trank við tökur á Capone.

Er Capone jafn slæm og fólk segir?

Þar sem ég var búinn að sjá öll þessu slæmu viðbrögð áhorfenda og gagnrýni, áður en ég sá myndina sjálfur, gat ég sett hana í töluvert skýrara samhengi en þeir sem sáu hana án þess að vita við hverju var að búast. Capone er alls ekki jafn slæm og margir vilja vera láta, því hún er gerð af færni og list, það verður ekki tekið af henni. Hér er um að ræða það sem í enskmælandi löndum er kallað „arthouse film,“ og þar af leiðandi er hún alls ekki fyrir alla. Það er ekki þar með sagt að Trank geri ekki mistök, því úrvinnsla hans er að ýmsu leyti gölluð og stundum tilgerðarleg. Hann þorir hinsvegar að gera tilraunir með kvikmyndaformið og taka áhættu. Hann á hrós skilið fyrir hugrekkið, því margir í hans sporum hefðu reynt að fara öruggari leið.

Það sem er myndinni til tekna er að hve dáleiðandi hún er á stundum, en ef þú ert að leita eftir hefðbundinni Hollywood-sögu, sem reynir að skapa samhyggð með persónum sínum, þá ertu að banka á rangar dyr. Capone er hinsvegar virðingarverð tilraun leikstjóra í leit að sjálfum sér, eftir algjört stjörnuhrap, og fær hann vonandi fleiri tækifæri til að þróa höfundarrödd sína, því hæfileikana vantar ekki.

Niðurstaða:

Þrjár stjörnur.

Capone er áhugaverð tilraun, sem gengur þó ekki fyllilega upp. Hún á hinsvegar alls ekki skilið það hatur sem hún hefur fengið yfir sig á vefmiðlum og þurfa áhorfendur að setja sig í ákveðnar stellingar við áhorfið, því hún er að mörgu leyti mjög óhefðbundin.

Hér er hægt er að hlýða á samtal Heiðars Sumarliðasonar við sviðslistakonuna Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur og blaðamanninn Tómas Valgeirsson um Capone, úr kvikmyndaþættinum Stjörnubíói.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×