Innlent

Fermetraverð nýrra íbúða hækkað um 8% milli ára

Andri Eysteinsson skrifar
Frá framkvæmdum við ný íbúðarhús á Hlíðarenda.
Frá framkvæmdum við ný íbúðarhús á Hlíðarenda. Vísir/Vilhelm

Söluverð á fermetra nýrra íbúða hækkað um 8% á milli ára samkvæmt mánaðarskýslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar fyrir júní 2020. Þar kemur einnig fram að fermetraverð eldri íbúða hafi einnig hækkað en þó talsvert minna eða um 2,5%.

Mesta breytingu á verði var að inna á eldri íbúðum á landsbyggðinni en þar nam hækkunin um 10%.

Í skýrslunni er litið svo á að minnkandi meðalstærð nýbygginga kunni að einhverju leyti að útskýra hækkun fermetraverðs nýrra íbúða síðustu ár en meðalstærð nýrra íbúða hefur minnkað úr 120 fm í 100 fm síðustu árin. Meðalstærð nýrra íbúða á landsbyggðinni er nú tæplega 80 fm.

Þá hækkaði leiguverð um 4,3% að nafnvirði á milli ára miðað við vísitölu leiguverðs en raunhækkun leiguverðs var rúmlega eitt prósent á höfuðborgarsvæðinu milli mars- og aprílmánaðar. Þinglýstum leigusamningum fækkaði á milli ára á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess.

Vaxtakjör lífeyrissjóðanna af verðtryggðum íbúðalánum hafa litlum breytingum tekið á árinu en vaxtakjör bankanna á slíkum lánum hafa lækkað um allt að 1,2 prósentum frá áramótum. Apríl síðastliðinn var umsvifamesti einstaki mánuðurinn hingað til í hreinum nýjum óverðtryggðum íbúðalánum hjá bönkunum. Alls voru í þeim mánuði lánuð út ný óverðtryggð íbúðalán að frádregnum uppgreiðslum á breytilegum vöxtum að upphæð ríflega 17,4 ma. kr. innan bankanna.

Hrein ný óverðtryggð útlán bankanna á föstum vöxtum til annað hvort þriggja eða fjögurra ára voru hins vegar neikvæð í apríl um tæpa þrjá milljarða króna. Uppgreiðslur verðtryggðra lána voru einnig á sama tíma um tveimur milljörðum króna umfram ný útlán heimilanna hjá bönkunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×