Atvinnulíf

Að hata mánudaga

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Ef þér finnst mánudagar leiðinlegir dagar, hefur þú velt því fyrir þér hvers vegna það er?
Ef þér finnst mánudagar leiðinlegir dagar, hefur þú velt því fyrir þér hvers vegna það er? Vísir/Getty

Í áratugi hefur verið talað um mánudaga sem leiðinlegustu daga vikunnar. Að minnsta kosti gera það margir. Sem betur fer kemur síðan í ljós að þegar vinnuvikan hefst eru mánudagarnir bara ágætis dagar og vikan líður svo hratt að áður en þú veist af er komið helgarfrí á ný.

En einn þeirra sem hefur skrifað og stúderað svolítið þetta neikvæða mánudagsviðhorf er rithöfundurinn Bob Weinstein, þ.e. sá sem er þekktur sem dálkahöfundur og er ekki bróðir Harry Weinstein eða Roberts (Bob) Weinstein. Bob Weinstein hefur gefið út um þrjátíu bækur m.a. bækurnar Quotes to live by, I hate my boss: How to survive and get ahead when your boss is a

tyrant, control freak or just plain Nuts! og Discover your inner strength.

Samkvæmt kenningum Bob Weinsteins eru algengustu skýringarnar á neikvæðu viðhorfi til mánudaga einkum þessar þrjár:

1. Óánægja eða leiði í starfi: Ef þú ert ekki í starfi sem þér finnst spennandi eða skemmtilegt, er líklegt að þér finnist mánudagar mjög leiðinlegir dagar. Það sem gerir vinnuvikuna erfiðari fyrir þennan hóp er að næstu dagar á eftir virðast lítið skárri. Dæmi um hvernig upplifun næstu daga gæti verið er:

  • Þriðjudagar: Dagarnir sem stundum eru á ensku kallaðir „Terrible Tuesday,“ þ.e. þeir þykja ekkert skárri en mánudagarnir. Þér leiðist enn.
  • Miðvikudagarnir: Jú, sem betur fer ná sumir að sjá þennan dag fyrir sér sem „hey, vikan strax hálfnuð og ekki mikið eftir.“ Aðrir eru þyngri á brún þar sem viðhorfið er „vikan rétt hálfnuð og heilir þrír dagar eftir, pfúff!“
  • Fimmtudagar: Þessir dagar skora ágætlega hjá mörgum enda stutt í helgina, bara morgundagurinn eftir.
  • Föstudagur: Loksins! Ekki aðeins er helgin framundan heldur er oft ákveðinn slaki á vinnustaðnum. Á sumum vinnustöðum eru þetta dagarnir þar sem meira að segja klæðnaður verður frjálslegri og jakkafötin víkja fyrir gallabuxum og þægilegum skóm. 

En hvað með hina sem eru ánægðir í starfi en finnst mánudagarnir SAMT leiðinlegir? Jú, samkvæmt Bob Weinstein standa tvær skýringar eftir og þær eru eftirfarandi:

2. Frábæru fríi er lokið: Þú gerðir eitthvað frábærlega skemmtilegt um helgina og það er einmitt um helgar sem þú ert alltaf að gera eitthvað skemmtilegt. Hugurinn leitar til áhugamálanna og þess sem þig langar helst að vera að gera fremur en að vinna.

Eða….

3. Frelsistilfinningin er farin: Helgin er í raun ekkert frí hjá öllum. Fjölskyldufólk þekkir það til dæmis vel að um helgar þarf að nýta tímann í að þrífa, kaupa inn fyrir vikuna, þvo og brjóta saman þvottinn og sjá til þess að börnin hafi eitthvað fyrir stafni. 

Allt þetta gerum við hins vegar á okkar eigin tíma og á okkar eigin hraða. Þess vegna gæti haturssambandið við mánudagana frekar skýrst af því að þér finnst frelsistilfinningin farin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×