Innlent

Bútaði niður Vatnajökul eins og veikindin

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Sigríður Ágústsdóttir við heimkomuna eftir að hafa þverað Vatnajökul ásamt Snjódrífunum. 
Sigríður Ágústsdóttir við heimkomuna eftir að hafa þverað Vatnajökul ásamt Snjódrífunum.  Vísir/Vilhelm

Ellefu konur, flestar á fimmtugsaldri slógu met þegar þær þveruðu Vatnajökul á átta dögum. Þær kalla sig Snjódrífurnar og hafa nú þegar safnað um fimm milljónum króna fyrir félögin Kraft og Líf.

Sigríður Ágústsdóttir forsprakki ferðarinnar ákvað að ganga yfir Vatnajökul með Snjódrífunum þegar fimm ár voru liðin frá því hún greindist með alvarlegt krabbamein og læknar töldu að hún ætti aðeins fáein ár eftir ólifuð. 

Hún hefur hins vegar verið frísk í nokkur ár og kom til Reykjavíkur í dag með Snjódrífunum eftir að hafa þverað Vatnajökul á átta dögum og eytt níunda deginum í ferð til byggða.

Sigríður á erfitt með að koma í orð hvern henni líður eftir áfangann. 

„Ég get eiginlega ekki lýst því hvernig mér líður, nema ég eigi að fara að gráta hérna. Ég er að springa úr stolti og hamingju yfir að hafa klárað þetta. Vatnajökull er táknrænn fyrir mig. Þú bútar niður verkefnið og þú getur líka bútað niður verkefni eins og að kljást við erfið veikindi og tekið þannig einn dag í einu þar til þú kemst að markinu.,“ segir hún.

Vilborg Anna Gissurardóttir Annar leiðangursstjóra ferðarinnar telur að hópurinn hafi slegið met.

„Ég veit alla vega ekki af stærri kvennaleiðangri sem hefur þverað Vatnajökul. Þetta er einn ótrúlegasti hópur sem ég hef ferðast með og í svona krefjandi verkefni. Það skipti engu máli hvað kom uppá. Ef einhver þurfit hjálp voru allir boðnir og búnir að hjálpa. Þetta var bara stórkostlegt ferðalag.“ segir Vilborg.

Sigríður Ágústsdóttir og Vilborg Anna Gissurardóttir Snjódrífur.Vísir/Egill

Þær segja að flestir dagar hafi gengið vel en ferðalagið hafi verið erfitt.

„Við fórum allar að skæla þegar við komum af jöklinum eða  fengum rykkorn í augun,“ segir Vilborg og hlær. 

Snjódrífurnar söfnuðu áheitum fyrir félögin Kraft og Líf, samhliða því að hvetja fólk til hreyfingar. Nú þegar hafa safnast um fimm milljónir króna og ennþá er hægt að styrkja málefnið. 


Tengdar fréttir

Algjör kuldaskræfa en þverar nú Vatnajökul

Kvennahópurinn sem nú þverar Vatnajökul er nú á sjöunda degi leiðangursins. Það var þungt færi hjá hópnum í gær, blöðrur og blautir fætur og kalt. Þrátt fyrir lélegt skyggni, birti þó til um miðjan dag og Snjódrífurnar gengu beint í austur átt.

Hópurinn ekki sterkari en veikasti hlekkurinn

Snemma á sunnudag fór hópur kvenna af stað upp á Vatnajökul en þær ætla að þvera jökulinn á tíu dögum fyrir góð málefni. Snjódrífan Brynhildur Ólafsdóttir er fararstjóri leiðangursins ásamt Vilborgu Örnu Gissurardóttur pól- og Everestfara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×