Innlent

Skimunargjald á landamærunum lækkað

Andri Eysteinsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu á blaðamannafundinum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu á blaðamannafundinum. Vísir/Vilhelm

Áfram verður haldið með skimanir á Keflavíkurflugvelli þrátt fyrir að ekki hafi greinst mörg virk smit frá því að skimanir á flugvellinum hófust. Frá og með 1. Júlí hefst gjaldtaka fyrir sýnatökur kjósi farþegar sem koma til landsins að forðast sóttkví.

Stjórnvöld höfðu ákvarðað að farþegar sem komi til landsins skyldu greiða 15.000 krónur fyrir kórónuveiruskimun á landamærunum. Mörgum fannst verðið full hátt og töldu að það myndi fæla frá hugsanlega ferðamenn.

Hafði ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures til dæmis tekið til þess ráðs að bjóða upp á að greiða skimunargjaldið fyrir viðskiptavini í formi afsláttar á pakkaferðum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti það á blaðamannafundi sem nú fer fram í ráðherrabústaðnum vegna skimana á landamærum að ákvörðun hafi verið tekin um að lækka skuli gjaldið fyrir skimun.

Frá og með 1. júlí mun því kosta 11.000 krónur að fara í kórónuveiruskimun á flugvellinum, sé greitt á staðnum en 9.000 krónur sé greitt fyrirfram.

öNýtt mat byggt á fenginni reynslu og breyttum forsendum leiðir í ljós að kostnaður við hvert sýni er að jafnaði lægra en ætlað var. Reglugerð heilbrigðisráðherra um gjaldtökuna hefur verið send til birtingar í Stjórnartíðindum,“ segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.

Sagði forsætisráðherra að með því væri verið að hvetja farþega til þess að greiða fyrir fram.

Gjaldtakan hafi þótt nauðsynleg til að mæta þeim mikla kostnaði sem fylgir sýnatökunum, ýmis sjónarmið hafi heyrst en nauðsynlegt hafi verið að fylgja sjónarmiðum sóttvarna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×