Sport

Ásdís byrjar lokaárið af krafti: „Gjörsamlega búin á því“

Sindri Sverrisson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir glaðbeitt eftir mótið ásamt þjálfara sínum Kari Kiviniemi.
Ásdís Hjálmsdóttir glaðbeitt eftir mótið ásamt þjálfara sínum Kari Kiviniemi. Mynd/Annerud Media

„Þetta var annar góður dagur á skrifstofunni,“ segir Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti, sem átti fjórða besta kastið í heiminum í ár þegar hún kastaði 62,66 metra á móti í Svíþjóð í gær.

Ásdís vann mótið sem fram fór í Bottnaryd og setti nýtt mótsmet, vallarmet og Norðurlandamet 35 ára og eldri. Íslandsmet hennar, frá árinu 2017, er 63,43 metrar og það met gæti hæglega verið í hættu í ár á lokatímabili Ásdísar en hún hefur ákveðið að leggja spjótið á hilluna í haust. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á tímabilið og orðið til þess að bæði Ólympíuleikunum og EM var frestað.

Ásdís hóf tímabilið í ár á því að kasta 61,24 metra á móti í Södertälje en kastið hennar í gær var það fjórða besta sem hún hefur átt á ferlinum. Hún tjáði sig lítillega um árangurinn á Instagram:

„Ég var að koma heim og ég er gjörsamlega búin á því,“ sagði Ásdís létt í bragði. „Ég veit ekki hvað er í gangi hjá mér. Fólk spyr af hverju ég ætli ekki að taka eitt ár í viðbót en ég er dauðþreytt eftir þetta. Ég er að eldast,“ sagði Ásdís og hló. Hún má enda vera ánægð með byrjunina á tímabilinu:

„Köstin eru ekki fullkomin og það er margt sem að ég get bætt, en ég kvarta ekki yfir því að hafa kastað 62,66 metra og geta enn bætt margt. Það gengur því frábærlega,“ sagði Ásdís.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×