Fótbolti

Ögmundur ekki í byrjunarliði í fyrsta skipti síðan 2018

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ögmundur í leik með Larissa.
Ögmundur í leik með Larissa. Vísir/Getty

Larissa mætti Atromitos í grísku úrvalsdeildinni í gær. Athygli vakti að landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson, markvörður fyrrnefnda liðsins, var á varamannabekknum en leikurinn tapaðist 3-0.

Er þetta í fyrsta sinn sem Ögmundur er ekki í byrjunarliði Larissa frá því hann gekk í raðir félagsins sumarið 2018. Síðast var hann utan byrjunarliðs er hann lék með Excelsior í Hollandi þann 6. apríl árið 2018.

Hefði Ögmundur byrjað leikinn hefði það verið hans 60. leikur í byrjunarliði félagsins.

Mögulegar ástæður fyrir fjarveru Ögmundar eru þær að hann gæti verið á förum frá félaginu. Hefur hann til að mynda verið orðaður við gríska stórliðið PAOK. Aðrar ástæður eru þær að leikurinn skipti engu máli fyrir lokaniðurstöðu deildarinnar.

Tímabilið hefur verið mikil vonbrigði fyrir Larissa sem endaði í neðri hluta grísku deildarinnar og mun því taka þátt í fallkeppni átta neðstu liðanna. Var það staðfest fyrir leik gærkvöldsins og því skiptir leikurinn gegn Atromitos í raun engu máli.

Samningur Ögmunds við Larissa rennur út sumarið 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×