Erlent

Golden State morðinginn játaði á sig 13 morð

Andri Eysteinsson skrifar
Joseph James DeAngelo hefur verið í varðhaldi frá árinu 2018.
Joseph James DeAngelo hefur verið í varðhaldi frá árinu 2018. AP/Rich Pedroncelli

Hinn 74 ára gamli Joseph DeAngelo játaði á sig 13 morð, fjölda nauðgana, innbrot og fleiri glæpi fyrir dómi í Sacramento í dag. Játning DeAngelo, sem betur er þekktur sem Golden State morðinginn, er liður í samkomulagi við ákæruyfirvöld sem ætlað er að forða DeAngelo frá dauðadómi.

DeAngelo var handtekinn árið 2018, meira en 40 árum eftir að Golden State-morðinginn lét fyrst til skarar skríða. Var hann ákærður fyrir þrettán morð, jafnmörg mannrán auk nauðgana. Alls var Golden State-morðinginn grunaður um minnst tólf morð, 51 nauðgun og 120 innbrot í Kaliforníu.

Vegna sóttvarnasjónarmiða játaði DeAngelo ekki í dómsal heldur í samkomusal háskóla í Sacramento til þess að hleypa þeim mikla fjölda að sem vildi verða vitni að herlegheitunum. Upphaflega vildu yfirvöld ekki semja við DeAngelo en talið er að kórónuveirufaraldurinn hafi breytt afstöðu þeirra þar sem að talið er að erfitt verði að halda aðalmeðferð áfram sökum aldurs vitna og fórnarlamba.

Brotin voru framin á árunum 1976-1986 í Kaliforníu og í fjörutíu ár voru málin óleyst. Árið 2018 var DeAngelo, þá 72 ára gamall, handtekinn grunaður um að bera ábyrgð á minnst fjórum morðanna. Að sögn lögreglu var DeAngelo hissa þegar hann var handtekinn, en DNA-sýni kom rannsakendum á rétta sporið.

Búist er við því að DeAngelo verði dæmdur til lífstíðarfangelsis í ágúst en við það tilefni mun hann þurfa að hlýða á vitnisburð aðstandenda fórnarlamba hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×