Innlent

Bótakröfu manns sem slasaðist við björgun á slysstað hafnað

Kjartan Kjartansson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Vátryggingafélag Íslands af kröfu mannsins. Taldi hann meiðsl hans ekki beina afleiðingu af notkun bifreiðar.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Vátryggingafélag Íslands af kröfu mannsins. Taldi hann meiðsl hans ekki beina afleiðingu af notkun bifreiðar. Vísir/Vilhelm

Vátryggingafélag Íslands þarf ekki að greiða karlmanni sem slasaðist við að draga ökumann sem lenti í bílslysi frá bifreiðinni bætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær. Maðurinn tognaði á öxl við björgunaraðgerðirnar og hefur þjáðst af áfallastreituröskun.

Slysið sem um ræðir átti sér stað í Ljósavatnsskarði 24. nóvember árið 2015. Þá varð harður árekstur tveggja bifreiða sem mikil mildi þótti að hafi ekki orðið neinum að bana. Maðurinn sem höfðaði málið gegn Vátryggingafélaginu var fyrstur á vettvang og dró slasaðan ökumann úr bifreiðinni sem síðan kviknaði í.

Sjá einnig: Bjargvættur fær ekki bætur eftir að hafa slasast við að draga mann úr brennandi bíl

Þegar maðurinn dró ökumanninn lengra frá bifreiðinni kippti sá slasaði í hönd hans og tognaði hann við það á öxl. Í kjölfarið sóttist bjargvætturinn eftir bótum úr ábyrgðatryggingu bifreiðarinnar. Úrskurðarnefnd vátryggingamála hafnaði kröfu hans í júní árið 2017. Taldi nefndin að tjón mannsins yrði ekki rakið til notkunar, bilunar eða galla í bifreiðinni og því ætti hann ekki rétt á bótum.

Maðurinn stefndi Vátryggingafélaginu í fyrra og krafðist bóta upp á rúmar fimm milljónir króna. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði félagið af kröfunni í gær. Taldi hann meiðsl mannsins „of fjarlæg og ósennileg afleiðing“ slyssins og notkunar bifreiðarinnar til þess að bótaskylda úr ábyrgðatryggingunni kæmi til greina.

Þá taldi dómurinn að maðurinn hefði ekki verið sjálfur í slíkri hættu á vettvangi að rétt væri að rekja áfallastreituröskun hans til notkunar bifreiðar.

Málskostnaður var felldur niður í málinu með vísan í venju í sambærilegum málum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×