Erlent

Hundruð embættismanna Bush sögð ætla að styðja Biden

Kjartan Kjartansson skrifar
Embættismenn sem störfuðu í ríkisstjórn George W. Bush ætla að beita sér gegn endurkjöri Trump með því að styðja Biden. Bush er sjálfur ekki sagður taka þátt í félagsskapnum.
Embættismenn sem störfuðu í ríkisstjórn George W. Bush ætla að beita sér gegn endurkjöri Trump með því að styðja Biden. Bush er sjálfur ekki sagður taka þátt í félagsskapnum. Vísir/Getty

Hópur sem telur hundruð embættismanna sem störfuðu í ríkisstjórn repúblikanans George W. Bush er sagður ætla að lýsa formlega yfir stuðningi við Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins, í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust. Fyrrverandi ráðherrar eru sagðir í hópnum sem leggst gegn endurkjöri Donalds Trump forseta.

Reuters-fréttastofan segir að hópurinn ætli að hleypa svonefndri pólitískri aðgerðanefnd (PAC) af stokkunum í dag. Í framhaldinu muni nefndin birta myndbönd frá áhrifamiklum repúblikönum sem bera lof á Biden og reyna að hvetja fólk til að kjósa í lykilríkjum þar sem mjótt er á munum á milli frambjóðendanna.

„Við vitum hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt og það sem við sjáum er afar óeðlilegt. Forsetinn er hættulegur,“ segir Jennifer Millikin, einn skipuleggjenda nefndarinnar. Hún starfaði fyrir framboð Bush til endurkjörs árið 2004 og starfaði síðar innan stjórnsýslunnar.

Þrátt fyrir að þeir sem tilheyra hópnum séu ekki sammála Biden í stjórnmálum telji þeir hann geta mætt áskorunum Bandaríkjanna af heilindum. Kristopher Puercell, sem starfaði í samskiptamálum í Hvíta húsinu í tíð Bush, segir hópinn ætla að velja landið fram yfir flokkinn í kosningunum í nóvember.

„Við teljum að ríkisstjórn Biden muni virða réttarríkið og hefja Hvíta húsið aftur til vegs og virðingar,“ segir Purcell.

Millikin segir enn ekki tímabært að greina frá því hverjir standa að hópnum. Bush er sagður hafa verið látinn vita af framtakinu en hann taki ekki sjálfur þátt í því. Talsmaður hans segist ekki ætla að skipta sér af kosningunum.

Annar hópur óánægðra repúblikana sem kallar sig Lincoln-verkefnið hefur undanfarið birt fjölda áróðursmyndbanda gegn Trump forseta. Í þeim hópi er meðal annars George Conway, eiginmaður Kellyanne Conway, eins nánasta ráðgjafa Trump.

Ýmsir eldri áhrifamenn í Repúblikanaflokknum eru sagðir ætla að annað hvort kjósa Trump ekki eða greiða Biden atkvæði sitt. Þeirra á meðal eru Bush, Jeb Bush bróðir hans og fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður flokksins og forsetaframbjóðandi árið 2012, og Colin Powell sem var utanríkisráðherra í tíð Bush.

Trump hefur lýst repúblikönum sem styðja hann ekki sem „mannlegu úrhraki“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×