Innlent

Verður að standa við stóru orðin

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Formaður Viðreisnar kveðst ekki eiga von á öðru en að fjármagn verði tryggt vegna laga um að sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga. Vilji þingsins sé skýr. Standa þurfi við stóru orðin.

Alþingi samþykkti samhljóða frumvarp Viðreisnar í fyrrinótt sem meðal annars kveður á um að sálfræðiþjónusta verði felld undir greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði aftur á móti í Bítinu á Bylgjunni í gær að þótt frumvarpið feli í sér heimild til heilbrigðisráðherra til að semja við Sjúkratryggingar, þá eigi eftir að afla fjárheimilda.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. „Þess vegna samþykkti nefndin og þingið að gildistakan er 1. janúar 2021 til þess einmitt að geta unnið tíma til þess að vinna þetta með fjárlögum. Þetta frumvarp var náttúrlega samþykkt algjörlega athugasemdalaust, líka af hálfu Sjálfstæðisflokksins,“ segir Þorgerður.

Vilji þingsins sé skýr. „Við skulum átta okkur á því að hver vinnandi manneskja hún borgar sig fyrir samfélagið. Hver króna sem er sett í forvirkar aðgerðir þegar kemur að andlegum málefnum hún skilar sér í tíu krónum til baka. Þannig að það er loksins þegar við erum búin að viðurkenna það, og setja andleg veikindi, að setja þau samhliða líkamlegum veikindum, þá verðum við líka að standa við stóru orðin og vilji þingsins, hann var alveg skýr í þessum efnum,“ segir Þorgerður.

Hún sé vongóð um að fjármagn verði ekki fyrirstaða. „Við erum að fjárfesta í líðan þjóðar, ekki síst á þessum tímum og í því felst mikil ábyrgð og við munum fylgja þessu eftir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×