Viðskipti innlent

Bíó Paradís bjargað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bíó Paradís við Hverfisgötu
Bíó Paradís við Hverfisgötu Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Bíó Paradís við Hverfisgötu mun hefja starfsemi að nýju í haust, en kvikmyndahúsið hefur verið lokað frá 1. maí.

Náðst hefur samkomulag við eigendur hússins og uppfærslur gerðar á samstarfssamningum við ríki og borg, að því er fram kemur í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Stefnt er að því að opna bíóið á ný um miðjan september næstkomandi, en þá verða liðin tíu ár frá því að starfsemi hófst þar.

Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíós Paradísar segist vera himinlifandi með niðurstöðuna. Vísir ræddi síðast við Hrönn í gær um stöðu mála, þá sagði hún að þessi mánaðamót mörkuðu þáttaskil. Peningarnir væru uppurnir og ef ekki næðist samkomulag við ríki og borg á næstu dögum væri endurreisn kvikmyndahússins úr sögunni.

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar.vísir/egill

„Við viljum þakka öllu stuðningsfólki Bíós Paradísar fyrir stuðninginn, en þó sérstaklega mennta- og menningarmálamálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg og eigendum hússins, félaginu Karli Mikla ehf.,“ segir Hrönn í fyrrnefndri tilkynningu. 

Þar segir jafnframt að vegna aðstæðna hafi Bíó Paradís þurft að segja upp öllu starfsfólki síðastliðið vor, en þá höfðu aðilar ekki náð saman um leigukjör og nauðsynlegar endurbætur og viðhald húsnæðisins til lengri tíma. Það hefur nú tekist, eftir að málsaðilar slógu af „ítrustu kröfum sínum og mættust á miðri leið,“ eins og það er orðað. Áframhaldandi starfsemi í kvikmyndamenningarhúsinu við Hverfisgötu hefur því verið tryggð.

Borgarstjóri og mennta- og menningarmálaráðherra segjast einnig vera kát með málalyktir. Bíó Paradís sé vagga kvikmyndamenningar á Íslandi og gegni mikilvægu hlutverki fyrir atvinnugreinina. Þá segir ráðherra jafnframt að ráðgert sé að að kynna með haustinu heildstæða kvikmyndastefnu fyrir Ísland, þar sem m.a. sé gert ráð fyrir „rekstri öflugs kvikmyndamenningarhúss.“


Tengdar fréttir

Leiguverðið var ekki lengur í Paradís

„Það sem er að gerast er einfaldlega það að við erum að missa húsnæðið,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×