Veður

Hiti víðast hvar yfir meðallagi í júní

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Það var blíða á köflum í höfuðborginni í júní. Margir gripu gæsina og nutu útverunnar í góðra vina hópi.
Það var blíða á köflum í höfuðborginni í júní. Margir gripu gæsina og nutu útverunnar í góðra vina hópi. Vísir/Vilhelm

Meðalhiti í Reykjavík í júnímánuði var 10,2 stig. Er það 1,2 stigum yfir meðallagi sama mánaðar áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti júnímánaðar á Akureyri var 11,21 stig, eða 2,0 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990, en 1,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Þetta kemur fram í yfirliti yfir tíðarfar síðastliðins mánaðar á vef Veðurstofunnar. Þar segir einnig að meðalhiti í Stykkishólmi hafi verið 9,4 stig í síðasta mánuði, og 10 stig á Höfn í Hornafirði.

Tafla sem sýnir meðalhita víða um land, og vik frá meðaltali tveggja tímabila.Veðurstofa Íslands/Skjáskot

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Mörk í Landi þann 28. júní, og var 24,2 stig. Lægsti hitinn var hins vegar -4,6 stig og mældist á Reykjum í Fnjóskadal.

Hvað meðalhita varðar var hann hæstur á Torfum í Eyjafirði, 11,1 stig. Lægstur var meðalhitinn á Gagnheiði, 3,5 stig. Lægsti meðalhiti á láglendi var hins vegar 6,4 stig í Seley.

Þá mældust sólskinsstundir í Reykjavík 167,4, en það er 6,1 stund yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri voru þær heldur fleiri, eða 222,4. Það er 45,8 stundum fleiri en að meðaltali. Þá var vindur á landsvísu 0,1 metra á sekúndu yfir meðallagi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 46,9 mm, eða rétt undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var úrkoman 10 prósent umfram meðaltal sömu ára. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 54,8 mm og 113,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Hér má nálgast samantekt Veðurstofunnar um tíðarfar í júní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×