Skoðun

Tæki­færin í sam­einuðu sveitar­fé­lagi

Hildur Þórisdóttir skrifar

Um þó nokkurn tíma hefur verið unnið að stofnun Háskólaseturs á Austurlandi en skortur á valkostum í háskólanámi hefur háð framgangi og vexti fjórðungsins um árabil. Menntastig íbúa á Austurlandi er lægra en annars staðar á landinu sem hefur haft margvíslegar afleiðingar. Tekjur Austfirðinga hafa staðið í stað síðastliðinn áratug á meðan heildartekjur hafa aukist annarsstaðar á landinu. Munur á launum kvenna og karla er hvað mestur á Austurlandi sem er birtingarmynd þess að staða kvenna er ekki nægilega sterk. Fjölbreytni skortir þegar kemur að atvinnutækifærum ungs fólks sem hefur hug á að setjast að eftir háskólanám. Samfélögin á Austurlandi hafa flest hver horft fram á fólksfækkun þar sem kvarnast hefur mest úr aldurshópnum milli 20 og 40 ára. Börnum hefur fækkað í leikskólum og grunnskólum á minnstu stöðunum og sums staðar hafa árgangar helmingast.

En hvað veldur?

Þetta er öfug þróun þegar hugsað er til þess að hvergi er betra að ala upp börn en í þorpunum út á landi. Frelsið og stuttu vegalengdirnar skapa lífsgæði sem borgarbúar geta aðeins látið sig dreyma um. Hér er andrými til að njóta lífsins og því virðist sólarhringurinn lengri.

Þegar við rýnum í ástæður þess að sífellt fleiri velja að sejast að í höfuðborginni eða erlendis blasir við skortur á innviðum. Hallað hefur verulega á landsbyggðina í byggðastefnu síðustu áratuga sem hefur lagt áherslu á sterka höfuðborg með góðum innviðum. Á sama tíma hefur sveitarstjórnarfólk eytt ómældum tíma í að berjast fyrir sjálfsagðri grunnþjónustu svo sem heilbrigðiskerfi, samgöngum og aðgengi að háskólanámi.

Hvað getum við gert?

Ríkisstjórnin hefur boðað sameiningu sveitarfélaga í þeirri viðleitni að styrkja þau og sveitarstjórnarstigið sem hefur verið veikt um langt árabil. Í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Fljótsdalshéraðs, Djúpavogs og Seyðisfjarðar eru sannarlega mörg tækifæri til að sækja fram.

Eitt þessara tækifæra og stórt framfaramál fjórðungsins er að koma á háskólanámi þar sem íbúar á Austurlandi geta stundað staðbundið nám. Í slíku háskólaumhverfi þrífast rannsóknir og nýsköpun sem styðja við aukna fjölbreytni og verðmætasköpun í atvinnulífi.

Því við vitum jú öll að menntun er grundvöllur nýsköpunar og nýsköpun er grundvöllur fjölbreytts atvinnulífs framtíðarinnar.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði og skipar 1. sæti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×