Bíó og sjónvarp

Fór þetta fram hjá þér í nýju Eurovision-myndinni?

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rachel McAdams í hlutverki íslensku söngkonunnar Sigrit Ericksdottir. Í bakgrunni má sjá hinn helming húsvíska tvíeykisins Fire Saga, Lars Ericksong. Hann er leikinn af Will Ferrell.
Rachel McAdams í hlutverki íslensku söngkonunnar Sigrit Ericksdottir. Í bakgrunni má sjá hinn helming húsvíska tvíeykisins Fire Saga, Lars Ericksong. Hann er leikinn af Will Ferrell. John Wilson/Netflix

Eins og mikið hefur verið fjallað um síðustu daga er nú komin út nýjasta mynd Bandaríska stórleikarans Will Ferrell, og fjallar hún um Eurovision-keppnina, sem Íslendingar dýrka margir og dá. Í myndinni bregður Ferrell sér í hlutverk misheppnaða húsvíska söngvarans Lars Ericksongs (sem er ekki alveg íslenskt nafn, en kannski næstum því). Í hinu aðalhlutverki myndarinnar er síðan Rachel McAdams í hlutverki Sigrit Ericksdottir (þessi nöfn eru steypa, ég veit). Myndin er aðgengileg á efnisveitunni Netflix, sem framleiddi hana.

Bandaríski fjölmiðillinn New York Times hefur nú birt samantekt um það sem áhorfendur myndarinnar gætu hafa misst af. Í umfjöllun NYT er búið að tína til hitt og þetta sem hinn almenni áhorfandi, sem kannski er ekki svo fróður um Eurovision, gæti hafa misst af. Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir það sem gæti hafa farið fram hjá fólki.

Eins og gefur að skilja inniheldur afgangur þessarar greinar spennuspilli. Ef þú hefur ekki séð Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, og vilt ekki fyrir nokkra muni láta spilla fyrir þér spennunni, hættu þá að lesa. Þú gætir til dæmis lesið þetta hérna í staðinn.

Jæja. Byrjum þá. Það fyrsta sem NYT fjallar um er hamstrahjólið sem Lars Ericksong hleypur í á meðan Fire Saga syngur lagið sitt, Double Trouble, í undanúrslitunum. Eins og áhorfendur myndarinnar vita endaði hamstrahjólsatriðið með ósköpum, þegar trefill Sigrit festist í því og allt fór í klessu.

Atriðið virðist þó hafa sótt innblástur í Eurovisionatriði Úkraínu frá 2014. Þar sést dansari einmitt hlaupa í svipuðu hjóli og Lars, á meðan söngkonan Mariya Yaremchuk söng. Helsti munurinn á atriðinu og því sem sést í myndinni er að hjólið fór ekki út í áhorfendaskarann og Yaremchuk hafði vit á því að vera ekki með allt of langan trefil.

Samsöngurinn góði

Þá er tæpt á því að margar af Eurovision-stjörnum fortíðar hafi komið fram í samsöngsatriðinu í teiti Rússans geðþekka Alexander Lemtov. Þar bresta partígestir í mjög undarlegan keðjusamsöng, þar sem mörgum af þekktustu andlitum Eurovision-keppninnar síðustu ár bregður fyrir.

Má þar nefna sigurvegarann frá 2012, Loreen, sem heillaði Evrópu upp úr skónum með Euphoria. Eins sést fiðluleikaranum Alexander Rybak bregða fyrir, en hann stal einmitt sigrinum af Jóhönnu Guðrúnu árið 2009 með seiðandi fiðluleik sínum.

Þá mátti einnig sjá fleiri sigurvegara keppninnar, til dæmis Nettu frá Ísrael, Jamölu frá Úkraínu og Conchitu Wurst frá Austurríki.

Samsöngur er alltaf góð hugmynd, í það minnsta virtust allir skemmta sér konunglega í myndinni.Jonathan Olley/Netflix

Okkar ástkæra ylhýra

NYT bendir í umfjöllun sinni á að Sigrit hafi viljað syngja á móðurmálinu, íslensku. Það sé vandamál sem margir keppendur Eurovision standi frammi fyrir á hverju ári, það er hvort syngja skuli á móðurmálinu, eða reyna að veiða fleiri atkvæði með því að syngja á ensku. Í því samhengi minnist NYT á Hatara, sem sungu lagið sitt Hatrið mun sigra, á íslensku í keppninni á síðasta ári. Hópurinn endaði í 10. sæti.

Þá er minnst á einhvern mesta harmleik í Eurovision-sögu Íslands, keppnina 2020 sem aldrei var haldin. NYT bendir réttilega á að Ísland hefur aldrei unnið keppnina, en í ár hafi verið teikn á lofti um að það myndi breytast. Framlagi Íslands í ár, laginu Think About Things, með Daða og Gagnamagninu, var spáð fáránlega góðu gengi. Faraldur kórónuveirunnar kom hins vegar í veg fyrir að keppnin færi fram í Rotterdam í ár. Það er því alls óvíst hvenær Íslendingar geta aftur farið að gera sér vonir um að fara sigurför um Evrópu.

Fleira sem tekið var til í samantektinni er eitthvað sem flestir Íslendingar sem horft hafa á Eurovision ættu að kannast við. Til dæmis er bent á það að nágrannalönd eru gjörn á að standa saman og veita hvort öðru mikil stig, og oft langtum fleiri en lönd fá að meðaltali frá öðrum Evrópuríkjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×