Skoðun

Ef kerfið virkar ekki þarf að breyta kerfinu

Diljá Ámundadóttir Zoega skrifar

Kerfið á að vera hannað fyrir fólk en fólk er ekki til fyrir kerfið. Þetta skrifaði ég í lok maí í grein hér á Vísi vegna óska nokkurra foreldra um að fá að senda börn sín, sem þurfa sérúrræði, í Arnarskóla. Meirihlutinn í Reykjavík gerir sér grein fyrir því að þarfir barna með greiningar og hvers konar fötlun eru æði misjafnar.

Því er það mikið ánægjuefni að borgarráð ákvað í gær að leyfa þeim börnum sem sótt höfðu um í Arnarskóla, og uppfylla skilyrði til að komast í skóla með sérúrræði, að komast þar að. Reykvískum börnum í Arnarskóla, sem er heildstæður skóli fyrir börn með þroskafrávik á grunnskólaaldri í Kópavogi, mun því fjölga um helming á komandi skólaári ef foreldrar þeirra óska enn eftir skólavist þar.

Í borg eins og Reykjavík býr alls konar fólk, með alls konar þarfir og til þess þarf að taka tillit þegar við, sem störfum í stjórnmálum, tökum ákvarðanir. Meirihlutinn í Reykjavík fagnar fjölbreytileikanum og vill að hann blómstri, að allir fái að njóta sín á eigin forsendum.

Kerfum er hægt að breyta ef þau þjóna ekki tilgangi sínum. Foreldrar fatlaðra og langveikra barna eiga ekki að þurfa að koma ítrekað fram í fjölmiðlum til að lýsa neikvæðum upplifunum sínum þegar þau óska eftir þjónustu eða aðstoð sem þau telja henta sínum börnum best. Því er það líka mikið ánægjuefni að borgarráð samþykkti líka í gær að fyrir 1. desember eigi að leggja fram skýrari viðmið hvað varðar nemendur í sjálfstætt reknum sérúrræðum.

Leikreglurnar hjá hinu opinbera eiga alltaf að vera skýrar og kerfin fyrir fötluð og langveik börn eiga að vera hönnuð með þarfir barnanna í huga og hvernig best er hægt að leyfa þeim að blómstra.

Höfundur er fulltrúi Viðreisnar í skóla- og frístundaráði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×