Innlent

Hlýtt fyrir norðan í dag en snýst við á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Veðurspáin fyrir allt landið á hádegi í dag.
Veðurspáin fyrir allt landið á hádegi í dag. Mynd/Veðurstofan.

Hæglætisveður verður víðast hvar á landinu í dag, hlýjast í innsveitum norðanlands. Þetta snýst þó við á morgun þegar kólnar þar, en hlýnar sunnanlands.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

„Hæglætisveður verður víðast hvar á landinu í dag, en einhverjir vindstrengir verða með suðurströndinni og á Ströndum. Að mestu skýjað og stöku skúrir sunnan- og vestanlands, en annars bjartviðri. Áfram er milt loft yfir landinu, hiti allt að 18 stigum, hlýjast í innsveitum norðanlands.“

Á morgun er þó útlit fyrir norðlæga átt með kólnandi veðri norðantil á landinu, en bjartviðri og hita að sautján stigum um sunnanvert landið. Í næstu viku munu ríkja fremur hægar norðlægar eða breytilegar áttir, skýjað með köflum og lítilsháttar væta í flestum landshlutum.

Kalt verður norðan heiða, á bilinu sex til ellefu stig, en hiti gæti náð átján stigum syðra.

Veðurhorfur á landinu

Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, en 8-13 með suðurströndinni. Gengur í norðan 8-13 norðvestantil eftir hádegi. Skýjað með köflum og stöku skúrir á sunnan- og vestanlands, og sums staðar þokubakkar austantil, en bjartviðri norðanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast í innsveitum fyrir norðan.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Norðlæg átt, 5-10 m/s en 8-13 með austurströndinni. Bjartviðri sunnan- og vestanlands, en sums staðar dálitlar skúrir síðdegis. Hiti 12 til 17 stig. Skýjað um landið norðanvert með hita 6 til 11 stig.

Á mánudag:

Norðlæg átt, 3-10 m/s, hvassast austantil. Lítilsháttar væta á Norður- og Austurlandi með hita 6 til 10 stig, en bjartviðri sunnan heiða og úrkomulítið, og hita að 18 stigum yfir daginn.

Á þriðjudag:

Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og líkur á skúrum í flestum landshlutum, einkum síðdegis. Hiti 8 til 15 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir fremur hæga norðlæga átt. Skýjað og einhver væta norðaustanlands, en annars bjart að mestu og þurrt. Hiti frá 6 stigum við norðausturströndina, upp í 18 stig á Suður- og Vesturlandi.

Á föstudag:

Líkur á hægri vestlægri átt. Skýjað en þurrt að kalla vestantil, annars bjartviðri. Hiti breytist lítið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×