Erlent

Kórónu­veiru­til­fellum á heims­vísu aldrei fjölgað meira

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Starfsmaður kirkjugarðs í Nova Iguacu í Brasilíu, klæddur hlífðarfatnaði til þess að koma í veg fyrir smit.
Starfsmaður kirkjugarðs í Nova Iguacu í Brasilíu, klæddur hlífðarfatnaði til þess að koma í veg fyrir smit. Leo Correa/AP

Tilfellum kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19 sjúkdómnum hefur aldrei fjölgað meira á heimsvísu en síðasta sólarhringinn, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Alls greindust 212.326 tilfelli í heiminum síðasta sólarhringinn.

Frá þessu er greint á vef Sky-fréttastofunnar. Þar segir að flest smit hafi greinst í Bandaríkjunum, Brasilíu og á Indlandi.

Fyrra metið fyrir fjölda smita á einum sólarhring var 189.077, þann 28. júní síðastliðinn.

Alls greindust 53.213 tilfelli veirunnar í Bandaríkjunum á síðasta sólarhringnum. Í Brasilíu reyndust þau 48.105 og á Indlandi 22.771. Í allri Evrópu greindust þá 19.694 tilfelli.

Samkvæmt WHO hafa alls 10,9 milljónir manna greinst með veiruna og rúmlega 523 þúsund látið lífið af völdum hennar.

Illa hefur gengið að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar í Bandaríkjunum, sem er það ríki sem á flest tilfelli hennar. Í Flórída-ríki greindust til að mynda 11.445 ný tilfelli, og er heildarfjöldi þeirra sem greinst hafa í ríkinu nú kominn yfir 190 þúsund.

Eins hefur tilfellum í Texas fjölgað tiltölulega hratt á stuttum tíma. Á dögunum var einnig slegið met í fjölda greindra tilfella á einum degi í Alabama.

Í Ástralíu og norðausturhluta Spánar hafa yfirvöld komið á útgöngubönnum á ákveðnum svæðum, til þess að bregðast við hópsmitum. Í Bretlandi er hins vegar verið að slaka á samkomutakmörkunum, en á laugardag opnuðu krár og hárgreiðslustofur dyr sínar fyrir viðskiptavinum, í fyrsta sinn í þrjá mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×