Íslenski boltinn

Eftirminnilegur tímamótaleikur hjá Kára

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kári í leik gegn KR í Meistarakeppni KSÍ.
Kári í leik gegn KR í Meistarakeppni KSÍ. Vísir/HAG

Bikarmeistarar Víkings heimsóttu Íslandsmeistara KR í Frostaskjólið um helgina í Pepsi Max deildinni í fótbolta. Leikurinn – sem var ef til vill ekki mikið fyrir augað hvað varðar fótbolta – var þó merkilegur fyrir margar sakir.

KR hefur nú unnið fjóra leiki í röð gegn Víkingum. Báðir deildarleikir liðanna í fyrra fóru 1-0 og þá vann KR leik liðanna í Meistarakeppni KSÍ, einnig 1-0. Leiknum í gær lauk hins vegar með 2-0 sigri KR og það sem meira er, Víkingar enduðu leikinn með átta leikmenn á vellinum.

Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson – miðverðir Víkinga í leiknum – sáu allir rautt. Hvort rauðu spjöldin áttu rétt á sér verður ósagt látið en leikur helgarinnar var 450. deildarleikur Kára Árna á ferlinum.

Víkingar verða því án miðvarðanna þriggja þegar liðið fær Val í heimsókn í Víkina á miðvikudaginn kemur. Sá leikur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Víðir Sigurðsson, blaðamaður Morgunblaðsins, birti í morgun lista með leikjahæstu leikmönnum Íslands og Kári er nú í 11. sæti listans. 

Kári hefur alls leikið 55 deildarleiki hér á landi, alla með Víking Reykjavík. Erlendis hefur Kári svo leikið með fjölda liða.

Hann lék 72 leiki með Djurgården og Malmö í Svíþjóð, 58 leikir komu með AGF og Esbjerg í Danmörku. Flesta leiki lék hann á Englandi eða 191 talsins með Plymouth og Rotherham, aðrir 53 komu með Aberdeen í Skotlandi. Átta með Omonia á Kýpur og að lokum þrettán í Tyrklandi með Gençlerbirliği.

Alls eru þetta 450 leikir í sjö löndum.

Í upphafi móts var Kári í 14. sæti yfir leikjahæstu Íslendinga en hann hefur nú unnið sig upp í 11. sæti. Fari svo að Kári nái öllum leikjum Íslandsmótsins sem eftir eru – nema leik liðsins gegn Val í næstu umferð þar sem Kári verður í leikbanni – þá verður landsliðsmaðurinn öflugi kominn upp í 7. sæti listans.

Kári á þó langt í land með að ná efstu mönnum en Arnór Guðjohnsen, Ívar Ingimarsson, Hermann Hreiðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen léku allir yfir 500 leiki á ferlinum.

523 Arn­ór Guðjohnsen

520 Ívar Ingimars­son

512 Her­mann Hreiðars­son

504 Eiður Smári Guðjohnsen

492 Heiðar Helgu­son

481 Ásgeir Sig­ur­vins­son

465 Arn­ar Þór Viðars­son

462 Atli Eðvalds­son

462 Rún­ar Krist­ins­son

460 Tryggvi Guðmunds­son

450 Kári Árna­son


Tengdar fréttir

Rúnar: Við fyrstu sýn voru þetta allt rauð spjöld

Þrátt fyrir sigurinn á Víkingi var þjálfari KR langt frá því að vera sáttur með frammistöðu sinna manna. Hann sagði að rauðu spjöldin þrjú sem Víkingar fengu hafi verið rétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×