Innlent

Katrín segir fram­lag Ís­lenskrar erfða­greiningar „ó­metan­legt“

Sylvía Hall skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir vonast til þess að lausn verði fundin á þeirri stöðu sem komin er upp eftir að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), lýsti því yfir að ÍE myndi hætta aðkomu að skimunum fyrir kórónuveirunni hér á landi frá og með deginum í dag.

Frá þessu greinir Katrín á Facebook-síðu sinni þar sem hún segir framlag ÍE hafa verið ómetanlegt. Þeim yrði seint fullþakkað fyrir þátttöku sína enda hefði baráttan við faraldurinn verið mun erfiðari og þungbærari ef þau hefðu ekki boðið fram aðstoð sína.

Katrín segist hafa tekið vel í erindi Kára um að koma á laggirnar sérstakri faraldsfræðistofnun innan embættis landlæknis svo hægt væri að byggja upp reynslu og þekkingu til þess að takast á við faraldra framtíðarinnar. 

Kári sagði hins vegar að Katrínu þætti vandamálið ekki jafn brátt og þeim hjá ÍE.

„Kári Stefánsson segir í opnu bréfi sínu að sér finnist að þessi vinna verði að ganga hraðar fyrir sig. Ég get vel fallist á það sjónarmið og við munum gera okkar til þess að unnið verði eins hratt og örugglega framast er kostur. Að sjálfsögðu vonast ég til þess að í þessu mikilvæga verkefni munum við áfram geta leitað til starfsfólks ÍE vegna þeirrar þekkingar og reynslu sem þar er innandyra,“ skrifar Katrín.

Katrín segir ákvörðun hafa verið tekna um að ráða sérstakan verkefnisstjóra til að vinna áfram slíkar hugmyndir og efla innviði heilbrigðiskerfisins til þess að takast á við faraldra með hliðsjón af tillögu Kára. Það taki þó sinn tíma.

„Slíkur undirbúningur og framkvæmd tekur hins vegar alltaf ákveðinn tíma og ég lagði því til að þær tillögur myndu liggja fyrir eigi síðar en 15. september.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×