Körfubolti

KKÍ hættir við þátttöku á Norðurlandamóti yngri landsliða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KKÍ sendir öllu jafna út breiðan hóp leikmanna og starfsmanna á Norðurlandamót yngri landsliða ár hvert.
KKÍ sendir öllu jafna út breiðan hóp leikmanna og starfsmanna á Norðurlandamót yngri landsliða ár hvert. Vísir/KKÍ

Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, hefur ákveðið að hætta við þátttöku U-16 og U-18 ára landsliða Íslands á Norðurlandamóti yngri landsliða sem fram fer í Finnlandi í byrjun ágúst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.

KKÍ hefur undanfarna daga fundað með yfirvöldum hér á landi vegna stöðunnar sökum kórónufaraldursins. Í tilkynningunni kemur fram að fulltrúar sambandsins hafi átt góða og upplýsandi fundi með yfirvöldum. Þau banni engum að ferðast en með tilliti til sóttvarna er það skoðun þeirra að sleppa eigi utanlandsferðum ef það er yfir höfuð hægt.

KKÍ hefur ákveðið að virða þá skoðun yfirvalda og draga sig því úr keppni. Sambandið vill ekki taka neina áhættu með þegar kemur að heilsufari leikmanna, þjálfara eða annarra á vegum KKÍ.

„Þó staðan sé ansi góð á Íslandi og nokkrum öðrum löndum þá verðum við að hafa sóttvarnir alls hópsins í forgangi. Mikilvægt er að við öll sem samfélag tökum þátt í að halda COVID-19 faraldrinum sem mest í skefjum hér á Íslandi, en ákvörðun KKÍ er tekin með hagsmuni okkar allra að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu KKÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×