Erlent

Vernda simpansa með störf Goodall að leiðarljósi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Afrískir simpansar njóta enn góðs af störfum Jane Goodall, frumkvöðulsins sem ferðaðist til Afríku fyrir sextíu árum til þess að rannsaka þessa náfrændur mannsins.

Jane Goodall er nú orðin 86 ára gömul en á síðustu öld ferðaðist þessi Englendingur, sem alla jafna er talinn fremsti simpansasérfræðingur heims, til Afríku. Þar rannsakaði hún mannapana, vingaðist við þá og verndaði. Enn í dag hafa sérfræðingar í Úganda störf Goodall að leiðarljósi.

Þessir simpansar sem hér má sjá eru munaðarlausir en búa nú með góðum vinum í simpansaathvarfi á Ngamba-eyju í miðju Viktoríuvatni. Regnskógur þekur eyjuna og simpansarnir geta fengið að búa þarna við náttúrulegar aðstæður, í friði frá veiðiþjófum og öðrum sem gætu viljað þeim illt.

Paul Nyenje er einn starfsmanna athvarfsins. Hann segir engan verða ríkan á þessari vinnu. Hún sé þó afar gefandi.

„Við vinnum hérna af því við elskum þessi dýr. Ef ekki væri fyrir þessa ást værum við ekki á eyjunni. Þetta er eitthvað sem ég Jane Goodall kenndi mér. Þegar þú gerir eitthvað áttu að gera það af öllu hjarta.

Að sögn Nyenje eru helstu hætturnar sem simpansar standa frammi fyrir veiðar og eyðing kjörlendis. Þar spilar skógarhögg afar stórt hlutverk. Hann segir sömuleiðis að kórónuveirufaraldurinn hafi bitnað á athvarfinu, enda tapi það töluverðum tekjum nú þegar engir eru ferðamennirnir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×