Erlent

Kveikt var í styttu af Melania Trump

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Styttan í Melania Trump sem stóð nærri heimabæ hennar í Slóveníu.
Styttan í Melania Trump sem stóð nærri heimabæ hennar í Slóveníu. Vísir/AP

Kveikt var í viðarskúlptúr af Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna nærri Sevnica, heimabæ hennar í Slóveníu aðfaranótt 4. júlí, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna. Styttan varð fyrir miklum skemmdum og var hún fjarlægð næsta dag.

Brad Downey, bandarískur listamaður sem búsettur er í Berlín og hafði umsjón með styttunni, segir að hún hafi verið fjarlægð um leið og lögreglan hafði gert honum viðvart um skemmdarverkið. „Ég vil vita hvers vegna þeir gerðu þetta,“ sagði Downey.

Hann segist hafa vonast til þess að styttan myndi vekja upp umræðu um ástand stjórnmála í Bandaríkjunum og þá sérstaklega þar sem Melania sem sjálf er innflytjandi er gift forseta sem talað hefur fyrir hertari innflytjendalöggjöf.

Undanfarnar vikur hefur Bandaríkjaforseti heitið því að ekki verði tekið á þeim sem skemma söguleg minningamerki með neinum vettlingatökum. Fjöldinn allur af sögulegum styttum hefur verið skemmdur eða tekinn niður síðustu vikur í kjölfar þess að Black Lives Matter hreyfingin varð háværari.

Þá sagði Downey að hann hafi tilkynnt málið til lögreglu og að hann vilji fá að taka viðtal við þá sem frömdu skemmdarverkið ef þeir finnast fyrir heimildamynd sem sýna á á listasýningu hans í Slóveníu í september.

Verkið var skorið út með keðjusög og var það listamaðurinn Ales Zupevc heimamaður í bænum sem skapaði verkið. Í janúar var svipuð stytta af Trump, sem hönnuð var af slóvenskum listamanni, brennd í borginni Moravce í Slóveníu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×