Íslenski boltinn

Jói Kalli: Óþolandi að koma í viðtal og tala um eitthvað víti sem var ekki víti

Ísak Hallmundarson skrifar
Jóhannes Karl var ekki sáttur með vítaspyrnudóminn.
Jóhannes Karl var ekki sáttur með vítaspyrnudóminn. vísir/daníel

ÍA og HK skildu jöfn í Pepsi Max deild karla á Akranesi í kvöld. Lokatölur í leiknum 2-2.

„Þeir náðu jafntefli hérna í dag en mér fannst við eiga skilið meira út úr þessum leik. Við spiluðum ekki okkar besta leik og hefðum getað gert betur í fullt af atriðum, ” sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA um leik sinna minna í kvöld.

HK jöfnuðu leikinn úr vítaspyrnu á 78. mínútu. Skagamenn voru vægast sagt óánægðir með dóminn en aðstoðardómarinn vildi meina að Marcus Johansson miðvörður ÍA hafi handleikið knöttinn.

„Það er óþolandi að vera að koma hérna í viðtal og tala um eitthvað víti sem átti aldrei að vera víti. Aðstoðardómarinn sem er eiginlega lengst í burtu frá atvikinu ákveður að dæma víti. Sem er að mínu mati aldrei víti. Það er markið sem HK-ingarnir jafna uppúr.”

Skagamenn áttu ekki sinn besta leik í kvöld. Þeir skoruðu bæði mörkin sín eftir föst leikatriði og náðu að skapa lítið af færum úr opnum leik.

„Við vorum ekki uppá okkar besta. Það var eins og það væri smá stress í okkur. Við vorum að komast í ágætar stöður en við vorum ekki að skapa nógu mikið af opnum marktækifærum. Við náðum samt sem áður að skora tvö mörk og það er pínu pirrandi að það dugi ekki til sigurs.”

Gestirnir voru ekki heldur of sáttir með dómgæsluna í kvöld. Þeir vilja meina að Óttar Bjarni Guðmundsson hafi verið rangstæður þegar hann lagði upp seinna mark ÍA.

„Nei en það var að mínu mati ekki rangstaða. Ég stend náttúrulega langt frá þessu þannig að ég var ekki í bestu stöðunni til að meta það. Ég gat ekki séð það neitt.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×