Íslenski boltinn

„Það er með­byr með þessu Gróttu­verk­efni úti í þjóð­fé­laginu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hjörvar og Kjartan í stuði í gær.
Hjörvar og Kjartan í stuði í gær. vísir/s2s

Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur, segir að Ágústi Gylfasyni, þjálfara Gróttu, fylgi gífurleg stemning og mikill stöðugleiki en hann sé þó duglegur að hrista upp í hlutunum.

Ágúst stýrði Gróttu til sigurs í fyrsta sinn í efstu deild er liðið vann 3-0 sigur á Fjölni í Grafarvogi í gær en allt annað hefur verið að sjá Seltirninga í síðustu tveimur umferðum.

Þeir byrjuðu mótið brösuglega en náðu svo í sitt fyrsta stig í síðustu umferð og í gær var það fyrsti sigurinn.

„Við verðum að muna það að liðin sem þeir mættu í fyrstu tveimur leikjunum voru Breiðablik og Valur. Tvö af bestu liðunum og þeir með einhvern sviðsskrekk á stóra sviðinu,“ sagði Hjörvar.

„Nú eru þeir heldur betur komnir í gang og komnir með fjögur stig á töfluna. Það er með Gústa Gylfa [Ágúst Gylfason, þjáfari Gróttu] að það getur fylgt honum rosaleg stemning. Það hefur alltaf gert.“

„Hann átti mjög erfitt með að halda þessu Fjölnisliði uppi, ár eftir ár, og fór nálægt 40 stigum eitt árið. Svo er þetta „element“ í Ágústi að það er ómögulegt að lesa hann. Var hann ekki með Axel Frey á bekknum í dag? Þú gerir bara ráð fyrir honum í byrjunarliðið og þetta er ekta Gústi að hann hristir oft upp í liðunum sínum.“

Grótta hefur farið nýjar leiðir hvað varðar launamál en enginn leikmaður félagsins, að sögn forsvarsmanna Gróttu, fær greitt mánaðarlega frá félaginu.

„Hann kemur inn í umhverfi sem við hefur ekki þekkst áður í íslenskum fótbolta hvað varðar alla umgjörð í kringum félagið. Ekki það að ég ætli að fara ræða einhver laun eða eitthvað slíkt en það er þannig að þeir eru ekki að borga neinum. Reyndar voru þeir að ná í Skota um daginn og það væri fyrsti útlendingurinn til að spila hérna án þess að taka neitt. Ef einhverjir geta það, þá eru það vinir mínir á Nesinu. Þeir eru góðir samningamenn.“

„Það er meðbyr með þessu Gróttuverkefni úti í þjóðfélaginu. Samningsfélagsleg ábyrgð að ná í erlendan leikmann og nota hann ekki - heldur senda hann í sóttkví. Það er jákvæðni með liðinu.“

Klippa: Pepsi Max-tilþrifin - Umræða um Gróttu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×