Innlent

Þrastarungi sem víkur ekki frá ellefu ára dreng vekur hann með fuglasöng

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þrastarunginn Selma víkur ekki frá Kára. Hún er frjáls ferða sinna öllum stundum en unir sér best í Hlíðunum.
Þrastarunginn Selma víkur ekki frá Kára. Hún er frjáls ferða sinna öllum stundum en unir sér best í Hlíðunum. SIGURJÓN ÓLASON

Hinn ellefu ára Kári Kamban Sigurborgarson á heldur óvenjulegt gæludýr, en hann tók að sér munaðarlausan þrastarunga. Þrestinum finnst skemmtilegt að fara í göngutúra og vekur Kára klukkan átta á morgnanna með fuglasöng.

Kári fann þröstinn fyrir rúmri viku síðan í laugardalnum. Var fuglinn þá ræfilslegur og yfirgefinn en foreldra hans var hvergi að sjá.

„Hann var í pínulitlum skógi en hann var einn það voru engir fuglar nálægt og svo var hann mjög gæfur ég gat strax klappað honum,“ sagði Kári Kamban Sigurborgarson.

Tók Kári þá fuglinn að sér í því skyni að gefa honum fæði svo hann myndi lifa af. Þegar fuglinn var orðinn stálpaður fór fjölskylda Kára með fuglinn í sumarbústað í þeim tilgangi að sleppa honum lausum út í náttúruna - en þá vildi hann hvergi fara.

„Við fórum með hann í sumarbústaðinn og reyndum að sleppa honum lausum en hann kom alltaf aftur til baka,“ sagði Kári.

Eftir nokkrar tilraunir til aðskilnaðar ákvað fjölskyldan að leyfa þrestinum að koma með Kára aftur heim í Hlíðarnar. Þeir félagar eru miklir vinir og spjalla heilmikið saman líkt og sjá má í myndskeiðinu.

Kári og þrösturinn eru miklir mátar. Þeir spjalla saman og fara út í göngutúra.SIGURJÓN ÓLASON

Þrösturinn fékk nafnið Selma og er hún öllum stundum frjáls ferða sinna. Hún hefur fengið ótal tækifæri til að fljúga út í náttúruna en virðist ekki vilja fara langt frá Kára sem hugsar mjög vel um fuglinn.

„Ef maður fer eitthvert þá eltir hún mann,“ sagði Kári.

Selmu þykir skemmtilegt að fara út í göngutúra með Kára. Hún sefur ýmist úti á svölum eða inni í svefnherbergi Kára á nóttunni og vekur hann á morgnanna með fuglasöngi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×