Erlent

Banda­ríkin beita kín­verska em­bættis­menn við­skipta­þvingunum vegna mann­réttinda­brota

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Úígúrskur aðgerðasinni mótmælir fyrir framan kínverska sendiráðið í Lundúnum.
Úígúrskur aðgerðasinni mótmælir fyrir framan kínverska sendiráðið í Lundúnum. Getty/ David Cliff

Bandaríkin tilkynntu í dag að þau muni beita kínverska stjórnmálamenn, sem sakaðir eru um að bera ábyrgð á mannréttindabrotum gegn minnihlutahópi múslima í Xinjiang héraði, viðskiptaþvingunum. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að Bandaríkin geti ekki setið hjá aðgerðarlaus á meðan slíkur hryllingur á sér stað í vesturhluta Kína.

Kínversk stjórnvöld hafa verið sökuð um að hafa hneppt þúsundir Úígúra í fangabúðir vegna kynþáttar þeirra og trúar. Viðskiptaþvingununum er beint sérstaklega gegn Chen Quanguo, leiðtoga kommúnistaflokksins í Xinjiang, og tveimur öðrum hátt settum mönnum.

Úígúrar eru þjóðarbrot í norðvestanverðu Kína sem stjórnvöld hafa markvisst ofsótt vegna múslimatrúar þeirra. Fregnir hafa borist af risavöxnum fangabúðum í Xinjiang þar sem um milljón þeirra hafa verið send. Yfirvöld halda því fram að tilgangur búðanna sé að berjast gegn ofbeldisfullu trúarofstæki en vísbendingar eru um að fólk hafi verið sent í búðirnar fyrir það eitt að iðka trú sína.

Chen er hæstsetti kínverski embættismaðurinn sem Bandaríkin hafa beitt þvingunum en hann er jafnan talinn arkitekt stefnu kínverskra stjórnvalda er varðar minnihlutahópa. Þá munu tveir aðrir embættismenn verða beittir þvingunum, það eru Wang Mingshan, yfirmaður almannavarnardeildar Xinjiang, og Zhu Hailun, fyrrum háttsettur embættismaður innan kommúnistaflokksins í Xinjiang.

Mennirnir þrír fá því ekki að ferðast til Bandaríkjanna og allar þeirra eignir sem staðsettar eru á bandarískri grundu hafa verið frystar. Þá er einnig ólöglegt að eiga við þá og fyrrverandi öryggismálafulltrúann Huo Liujun, viðskipti. Huo er þó ekki meinað að ferðast til Bandaríkjanna. Þá verður Almannavarnadeild Xinjiang einnig beitt þvingunum.


Tengdar fréttir

Kalla eftir aðgerðum vegna mannréttindabrota í Kína

Bandarískir þingmenn birtu í gær skýrslu þar sem kallað er eftir refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum gegn Kína, vegna mannréttindabrota þar í landi. Skýrslan var samin af þingmönnum bæði Demókrata- og Repúblikanaflokksins og segja þeir aðstæður íbúa Kína hafa versnað á undanförnu ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×