Erlent

Mann­leg mis­tök og lé­leg sam­skipti innan hersins hafi valdið flug­slysinu

Sylvía Hall skrifar
Björgunarmaður á vettvangi flugslyssins í Shahedshahr, suðvestur af Teheran.
Björgunarmaður á vettvangi flugslyssins í Shahedshahr, suðvestur af Teheran. Vísir/AP

Léleg samskipti innan hersins og mannleg mistök urðu til þess að úkraínsk farþegaþota var skotin niður í Teheran skömmu eftir flugtak. Þetta kemur fram í skýrslu íranskra rannsakenda sem hefur ekki enn verið birt opinberlega en staðarmiðillinn Fars greinir frá niðurstöðum hennar.

Vélin tók á loft frá alþjóðaflugvellinum í írönsku höfuðborginni þann 8. janúar síðastliðinn en var skotin niður fyrir mistök af írönskum hermönnum, sem töldu hana vera stýriflaug. Allir 176 um borð létust í slysinu en vélin var á leið til Kænugarðs í Úkraínu. Hún var í eigu flugfélagsins Ukraine International Airlines og var af gerðinni Boeing 737-800.

Um borð í flugvélinni voru farþegar frá mörgum löndum. Flestir frá Íran, eða 82. 57 voru frá Kanada en margir þeirra voru með tvöfalt ríkisfang, og ellefu frá Úkraínu.

Eldflaugunum var skotið með tuttugu og þriggja sekúndna millibili frá herstöð skammt frá flugvellinum. Nokkrum klukkustundum áður höfðu Íranar skotið eldflaugum á herstöðvar í Írak, þar sem bandarískir hermenn héldu til, og áttu von á hefndaraðgerðum vegna drápsins á Qasem Soleimani.

Í skýrslunni segir að hermennirnir hafi ekki náð sambandi við stjórnstöð sína og því var flaugunum skotið án formlegs samþykkis. Írönsk yfirvöld gáfu það út í síðasta mánuði að sex hefðu verið handteknir vegna málsins en hafa ekki enn afhent erlendum yfirvöldum flugritann. Á vef BBC segir að áætlað sé að senda ritann til Frakklands til skoðunar þann 20. júlí.

Blaðamenn New York Times notuðu myndbönd, opinber gögn og viðtöl til að teikna ítarlega heildarmynd af þessari stuttu flugferð skömmu eftir slysið. Hér að neðan má sjá rannsókn þeirra.


Tengdar fréttir

Úkraína vill skaðabætur og ítarlega rannsókn

Forseti Úkraínu kallaði í yfirlýsingu sinni í dag að Íran hefji ítarlega rannsókn á því að úkraínsk farþegaflugvél var skotin niður af íranska hernum skömmu eftir brottför frá Tehran.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×