Enski boltinn

Virgil van Dijk fer „íslensku leiðina“ með treyjunafnið sitt vegna föður síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk er með Virgil nafnið aftan á Liverpool keppnistreyju sinni.
Virgil van Dijk er með Virgil nafnið aftan á Liverpool keppnistreyju sinni. EPA-EFE/PETER POWELL

Glöggir knattspyrnuáhugamenn hafa tekið eftir því að það stendur „Virgil“ en ekki „Van Dijk“ aftan á treyju eins besta leikmanns Englandsmeistara Liverpool.

Nær allir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar eru með eftirnafnið sitt á keppnistreyjunni en einn af þeim stóru í deildinni fer aftur á móti aðra leið eða sömu leið og við gerum hér á Íslandi.

Nokkrir pirraðir stuðningsmenn Liverpool keyptu sér treyju með „Van Dijk“ aftan á þegar hann var keyptur frá Southampton á sínum tíma en sáu svo hetjuna sína halda á Liverpool treyju með „Virgil“ aftan á.

Virgil van Dijk vill nefnilega ekki nota eftirnafnið sitt á Liverpool treyjunni og það er ástæða fyrir því ef marka má viðtal við frænda hans.

Móðurbróðir Virgil van Dijk heitir Steven Fo Sieeuw og hann sagði Sun söguna á bak við það af hverju hollenski miðvörðurinn vill ekki nota nafn föðurs síns.

Faðir Virgil van Dijk yfirgaf fjölskylduna þegar Virgil var aðeins tólf ára gamall og hann hefur ekki enn fyrirgefið hinum það.

„Virgil hefur náð ótrúlegum árangri í sínu lífi miðað við það sem hefur gengið á í fjölskyldu hans. Hið sanna er að faðir hans var ekki til staðar á mikilvægum árum í hans lífi og það móðir hans sem er hetjan í þessari sögu,“ sagði Steven Fo Sieeuw.

Faðir Virgil van Dijk er Hollendingur en móðir hans er frá Súrínam sem er fyrrum hollensk nýlenda (Hollensku Gvæjana) en nú sjálfstætt ríki á norðausturströnd Suður-Ameríku. Súrínam hlaut fullt sjálfstæði 25. nóvember 1975 en Van Dijk er fæddur árið 1991.

„Þú tekur ekki nafn föður þíns af keppnistreyjunni þinni af ástæðulausu og Virgil hefur látið það skýrt í ljós hvernig honum líður,“ sagði Fo Sieeuw.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×