Íslenski boltinn

Fylkismenn hafa ekki unnið fleiri deildarleiki í röð í átján ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fylkismenn hafa unnið síðustu fjóra leiki sína í Pepsi Max deildinni með markatölunni 10-3.
Fylkismenn hafa unnið síðustu fjóra leiki sína í Pepsi Max deildinni með markatölunni 10-3. Vísir/Vilhelm

Fylkismenn unnu sinn fjórða leik í röð í Pepsi Max deildinni í gærkvöldi en þetta er í fyrsta sinn í sjö ár sem liðið nær að vinna svo marga deildarleiki í röð.

Fylkir tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum í Pepsi Max deildinni í sumar en hefur fylgt því eftir með því að vinna Gróttu, Fjölni, KA og nú síðast FH í gærkvöldi.

Fylkir vann síðast fjóra leiki í röð í júlí og ágúst árið 2013.

Það þarf síðan að fara enn lengra aftur í tímann til að finna lengri sigurgöngu hjá Fylkisliðinu.

Fylkir vann síðast fleiri en fjóra deildarleiki í röð tímabilið 2002 þegar liðið vann fimm leiki í röð í júlí og ágúst. Það er lengsta sigurganga Fylkis í efstu deild.

Fylkir endaði í öðru sæti sumarið 2002 en missti þá af Íslandsmeistaratitlinum í lokaumferðunum. Fylkir var sjö mínútum frá því að tryggja sér titilinn í næstsíðustu umferðinni og tapaði síðan í lokaumferðinni upp á Akranesi.

KR náði að jafna metin í 1-1 í Árbænum í næstsíðustu umferðinni og tryggði sér síðan Íslandsmeistaratitilinn með 5-0 sigri á Þór í lokaumferðinni. Þyrlan fór því með Íslandsmeistarabikarinn frá Skaganum og upp á KR-völl. Fylkir hefur aldrei verið nærri því að verða Íslandsmeistari.

Markaskorararnir í 2-1 sigrinum á FH í Kaplakrika eru hvorugir búnir að halda upp á tvítugsafmælið sitt. Arnór Borg Guðjohnsen, sem skoraði sigurmarkið fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður verður tvítugur í september og Þórður Gunnar Hafþórsson, sem kom Fylki í 1-0, verður ekki nítján ára fyrr en í ágúst.

Fylkismenn hafa reyndar unnið fimm síðustu leiki sína því fyrsti sigurinn á tímabilinu var 8-0 sigur á ÍH í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Eftir það hefur Árbæjarliðið unnið alla sína leiki í Pepsi Max deildinni.

Lengstu sigurgöngur Fylkis í efstu deild:

  • 5 - 2002
  • 4 - 2020  (enn í gangi)
  • 4 - 2013
  • 3 - 2000
  • 3 - 2002
  • 3 - 2004
  • 3 - 2007
  • 3 - 2008
  • 3 - 2009



Fleiri fréttir

Sjá meira


×