Viðskipti erlent

Mesti samdráttur í sögu evrusvæðisins

Kjartan Kjartansson skrifar
Áhrif kórónuveirufaraldursins sjást greinilega á nær auðri Poniente-ströndinni á Benidorm þessa dagana. Veiran og aðgerðir gegn henni eru orsök gríðarlegs efnahagssamdráttar á Spáni og í Evrópu.
Áhrif kórónuveirufaraldursins sjást greinilega á nær auðri Poniente-ströndinni á Benidorm þessa dagana. Veiran og aðgerðir gegn henni eru orsök gríðarlegs efnahagssamdráttar á Spáni og í Evrópu. Vísir/EPA

Landsframleiðsla evruríkjanna dróst saman um 12,1% á öðrum ársfjórðungi og hefur samdrátturinn aldrei mælst meiri á evrusvæðinu. Verst er ástandið á Spáni þar sem hagkerfið skrapp saman um 18,5% frá apríl til júní en það hafði þegar dregist saman um 5,2% á fyrsta fjórðungi.

Tölurnar sem Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) birti í dag eru þær svörtustu frá því að hún byrjaði að taka tölfræði af þessu tagi saman árið 1995. Skýrast þær af þeim efnahagslegu hamförum sem kórónuveiruheimsfaraldurinn og aðgerðir til að stöðva hann hafa valdið í álfunni. Í Evrópusambandinu öllu dróst landframleiðsla saman um 11,9%.

Í Frakklandi varð 13,8% samdráttur á tímabilinu. Franska hagstofan telur að botninum hafi verið náð í apríl og hagkerfið braggast aðeins þegar byrjað var að slaka á höftum vegna kórónuveirufaraldursins í maí og júní, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Á Ítalíu var samdrátturinn 12,4% sem var töluvert undir því sem óttast hafði verið. Faraldurinn skall einna fyrst á Ítalíu og af hvað mestum krafti. Þýskaland tilkynnti í gær um mesta samdrátt á einum ársfjórðungi frá því að slíkar mælingar hófust, 10,1%.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×