Viðskipti innlent

Aug­lýsinga­stofan Sahara varð fyrir net­á­rás

Sylvía Hall skrifar
ltuhrr

Netárás var gerð á Facebook-aðgang auglýsingastofunnar Sahara aðfaranótt 30. júlí og hefur stofan tapað tengingu við aðganginn. Því er ekki ljóst hvaða fyrirtæki hafa orðið fyrir árásinni í gegnum aðgang Sahara en auglýsingastofan hefur sett sig í samband við viðskiptavini.

Tölvuþrjótarnir virðast vera að setja upp auglýsingar með það að markmiði að selja vörur á erlendum mörkuðum. Þó sé erfitt að meta hvort um fjölbreyttar auglýsingar sé að ræða á meðan Sahara bíður upplýsinga frá Facebook.

„Sahara hefur því sett sig í samband við viðskiptavini með upplýsingum um stöðu mála og leiðbeiningum sem snúa að þessu öryggisbroti til að halda öllum upplýstum á meðan beðið er eftir frekari upplýsingum frá Facebook, en skv. þeim upplýsingum sem Sahara hefur fengið getur það tekið allt að 72 klukkutíma að afgreiða mál að þessari tegund,“ segir í tilkynningu frá Sahara.

Málið er í forgangi hjá Facebook þessa stundina og þykir því líklegt að fleiri aðgangar hafi orðið fyrir samskonar árásum. Þeir aðgangar sem urðu fyrir netárásinni munu fá endurgreiðslu og eru einhver fyrirtæki nú þegar farin að fá greiðslu vegna þess.

Sahara hefur sett sig í samband við tölvuöryggisfyrirtækið Syndis vegna málsins.

„Okkur í Sahara þykir það mjög leitt að þetta hafi gerst og erum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að afgreiða þetta mál í samstarfi við Facebook. Við höfum sett okkur í samband við Syndis sem aðstoðar okkur eftir fremsta megni,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri SAHARA.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×