Innlent

Íslendingar hætti að leita að sökudólgum í faraldrinum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsa.
Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsa. vísir/einar

Umsjónarmaður farsóttarhúsa hvetur Íslendinga til að hætta að leita sökudólgum í faraldrinum. Engum sé um að kenna að smituðum fjölgi nú á ný, hvorki ferðamönnum né hælisleitendum en enginn hefur greinst í síðarnefnda hópnum.

Fjögur farsóttarhús eru í landinu. Tvö við Rauðarárstíg í Reykjavík, eitt á Akureyri og annað á Egilsstöðum. Samanlagt dvelja þar á fjórða tug Íslendinga og útlendinga í einangrun og sóttkví, langflest í Reykjavík en ein fjölskylda er í farsóttarhúsinu á Akureyri eftir að einn fjölskyldumeðlima greindist með veiruna þar í gær.

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsanna, segir að risið í faraldrinum síðustu daga á Íslandi sé ekki ferðamönnum eða flóttamönnum að kenna. Borið hefur á gagnrýni í garð ferðaþjónustunnar síðustu daga, til að mynda úr röðum tónlistarfólks, og henni kennt um fjölgun smita að undanförnu. Gylfi Þór segir engan vera sökudólg í þessum efnum, hvað þá þau sem að endingu leita í farsóttarhúsin.

„Ekki frekar en þeir Íslendingar sem smitast. Þetta er veira sem við erum að kljást við og hún fer ekki í manngreiningarálit,“ segir Gylfi Þór. „Hún getur sest í okkur öll og við verðum að hætta að benda hvort á annað, hætta að leita að sökudólgum og standa frekar saman í því að sigrast á henni.“

Þannig að fólk ætti að láta af gagnrýni sinni á þá ferðamenn sem hingað koma?

„Já, við náum þeim ferðamönnum sem koma til landsins á landamærunum. Ef þeir eru sýktir þá koma þeir hingað [í farsóttarhús]. Ef ég man þetta rétt þá hefur aðeins einn ferðamaður, líklega sá sem er á Akureyri, fengið neikvætt í fyrri skimun en smitast svo. Hann getur allt eins hafa smitast af Íslendingi.“

Gylfi Þór segir þjóðerni því ekki skipta máli í baráttunni við faraldurinn. „Sem dæmi hefur enginn þeirra hælisleitenda sem komið hefur til landsins verið smitaður,“ segir Gylfi. „Þannig að við getum ekki bara verið að benda út í loftið.“

Gylfi sendi frá sér pistil um sama efni í gærkvöldi. Hann má lesa hér að neðan.


Tengdar fréttir

Boðað til upplýsingafundar í dag

Fulltrúar landlæknis og almannavarna boða til upplýsingafundar um kórónuveirufaraldurinn klukkan 14:00 í dag. Nýjar og hertar sóttvarnareglur tóku gildi í gær eftir nýlega fjölgun nýrra smita.

Sjö greindust með veiruna

Sjö greindust með kórónuveirusmit á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×