Fótbolti

UEFA bannar áhorfendur í leiknum á móti Englandi á Laugardalsvellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laugardalsvöllur verður tómur þegar enska landsliðið mætir í næsta mánuði.
Laugardalsvöllur verður tómur þegar enska landsliðið mætir í næsta mánuði. Getty/Abdulhamid Hosbas

Margir knattspyrnuáhugamenn hér á landi voru örugglega búnir að bíða spenntir eftir leik Íslands og Englands í Þjóðadeild UEFA sem fer fram á Laugardalsvellinum 5. september næstkomandi.

Það er enn mánuður í leikinn og því ekki vitað hvernig ástandið verður á Íslandi þá hvað varðar kórónuveirufaraldurinn. Það breytir ekki því að Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur nú tekið þá ákvörðun að engir áhorfendur verði leyfðir á landsleikjum á vegum sambandsins í september.

Þetta kemur fram í frétt hjá norska knattspyrnusambandinu sem segir frá því að engir áhorfendur verði leyfðir á heimaleik liðsins á móti Austurríki sem fer fram 4. september.

Ísland og England mætast daginn eftir eða 5. september. Þremur dögum síðar spilar íslenska landsliðið út í Belgíu á móti heimamönnum og þar verður heldur engir áhorfendur leyfðir. Það á síðan eftir að taka ákvörðun um hvernig þessu verður háttað í landsleikjaglugganum í október.

Það er ljóst að þetta eru ekki skemmtilegar fréttir enda fögnuðu eflaust margir þegar Íslands og Englands drógust saman í riðil í Þjóðadeildinni.

Þetta er fyrsti keppnisleikur Íslands og Englands á íslenskri grundu og fyrsti leikur enska A-landsliðsins hér á landi. Þetta er líka fyrsti leikur þjóðanna síðan að íslensku strákarnir sendu enska landsliðið heim á EM í Frakklandi sumarið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×