Enski boltinn

Anelka um enda­lokin hjá Liver­pool: „Þessi sena var harm­leikur fyrir mig“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Anelka fagnar marki í leik með Liverpool.
Anelka fagnar marki í leik með Liverpool. vísir/getty

Fyrrum knattspyrnumaðurinn, Nicolas Anelka, hefur neitað því að hann hafi viljað yfirgefa Liverpool og segir að hann hafi viljað ganga skipta alfarið yfir til félagsins.

Anelka var lánaður til félagsins síðari hluta tímabilsins 2001/2002 er Gerrard Houllier, landi hans, var stjóri enska liðsins.

September, sama ár, eftir að Anelka fór frá félaginu sagði Houllier að hann hafi ekki viljað skrifa undir við Anelka og það hafi verið út af allt öðrum hlutum en fótbolta.

Á dögunum kom út heimildarmynd um Anelka, Misunderstood, þar sem hann ræðir m.a. tímann hjá Liverpool.

„Stuðningsmenn Liverpool halda að ég hafi ekki viljað vera áfram en þeir þurfa að vita að það var ekki þannig,“ sagði Anelka í myndinni.

„Þessi sena var harmleikur fyrir mig. Þetta er félag sem ég hefði getað gert frábæra hluti hjá.“

Anelka kom til félagsins sem smá vandræðagemsi en hann gerði vel og hafði strax áhrif á liðið. Skoraði hann fimm mörk og lagði upp þrjú mörk og var kominn með marga stuðningsmenn félagsins á sitt band.

Houllier var ekki sannfærður um Anelka og lét hann fara til þess að geta fengið annan vandræðagemsa, El Hadji Diouf, eftir frábæra frammistöðu hans með Senegal á HM.

Það gekk heldur ekki upp en Diouf skoraði einungis þrjú mörk í yfir 50 leikjum. Hann var lánaður til Bolton og gekk svo endanlega í raðir Bolton þremur árum seinna, árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×