Enski boltinn

Segir Kostas á leið til Eng­lands þar sem fimm ára samningur hjá Liver­pool bíður hans

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kostas Tsimikas er á leið til Liverpool.
Kostas Tsimikas er á leið til Liverpool. vísir/getty

Liverpool virðist vera ganga frá kaupum á vinstri bakverðinum Kostas Tsimikas frá grísku meisturnum í Olympiakos.

Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano er talinn nokkuð áreiðanlegur hvað varðar félagaskipti um allan heim og hann greinir frá félagaskiptunum á Twitter-síðu sinni.

Í kjölfarið hafa fleiri enskir miðlar greint frá kaupunum og eru miklar líkur á því að Liverpool staðfesti skiptin á næstu dögum.

Liverpool hefur verið á leitum eftir vinstri bakverði, til þess að vera varaskeifa fyrir Andy Robertson, en tilboði þeirra í vinstri bakvörð Norwich, Jamal Lewis, var hafnað í síðustu viku.

Ensku meistararnir hafa komist að samkomulagi við Olympiakos um að greiða tæplega tólf milljónir punda fyrir Kostas en hann mun skrifa undir samning til ársins 2025.

Kostas hefur verið á mála hjá Olympiakos frá árinu 2014 en hann var lánaður til Esbjerg í Danmörku árið 2017 og Williem II í Hollandi árið eftir.

Þessi 24 ára gamli bakvörður fær um 50 þúsund pund á viku á Anfield en hann er annar leikmaðurinn sem yfirgefur Olympiakos í sumar.

Norski landsliðsmaðurinn Omar Elabdellaoui er einnig farinn frá félaginu en Galatasaray ku vera áhugasamt um Norðmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×