Innlent

Samherji framleiðir eigin þætti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samherji hefur lagst í þáttagerð til að koma sjónarmiðum sínum betur á framfæri.
Samherji hefur lagst í þáttagerð til að koma sjónarmiðum sínum betur á framfæri. Vísir/Vilhelm

Samherji boðar útgáfu vefþátta, hvers ætlunarverk er að miðla sýn útgerðafélagsins á Samherjamálið svokallaða og umfjöllun Kveiks um starfsemi Samherja í Namibíu. Fyrirtækið hefur þegar sent frá sér stiklu um fyrsta þáttinn, sem sýndur verður á morgun. Vísir hefur kallað eftir nánari upplýsingum frá félaginu um þættina og verður fréttin uppfærð þegar þær berast.

Í stiklunni, sem sjá má hér að neðan, er Helgi Seljan fréttamaður Kveiks í forgrunni. Samherji segist hafa undir höndum leynilega upptöku þar sem heyra má Helga krefjast þagmælsku af einhverjum og að hann hafi átt í erfiðleikum með að staðfesta eitthvað.

Helgi segist í samskiptum við Vísi ekki vilja tjá sig um  málið að svo stöddu. Í samskiptum við Mannlíf segist hann ekki hafa hugmynd um hverju sé von á í fyrirhuguðum þáttum. Hann óttist fullt af hlutum en ekki sýningu þáttanna. „Ég veit ekki hvað þessum mönnum gengur til en ég get ekki sagt að þetta komi mér neitt á óvart,“ hefur Mannlíf eftir Helga.

Ekki fyrstu Samherjaþættirnir

Samherji hefur áður ráðist í sjónvarpsþáttagerð þar sem félagið hefur uppi varnir um starfsemi sína. Það gerði Samherji í þáttum á Hringbraut þar sem húsleit Seðlabanka Íslands í húsakynnum félagsins var í fyrirrúmi. Í fyrrnefndri stiklu má einmitt sjá glefsur úr umræddri húsleit.

Þá má ætla að starfsemi Samherja í Namibíu beri á góma í þáttunum, en hún hefur verið í deiglunni frá því að Kveikur varpaði ljósi á starfsemina í lok síðasta árs. Helgi Seljan var meðal þeirra þriggja fréttamanna sem höfðu veg og vanda af gerð Kveiksþáttarins en Al Jazeera, Stundin og Wikileaks stóðu jafnframt að umfjölluninni.

Sem fyrr segir hefur Vísir kallað eftir nánari upplýsingum frá Samherja um efnistök þáttanna sem félagið hefur boðað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×