Innlent

Ógnaði starfsfólki Bónuss með grjóti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr verslun Bónuss í Skipholti þar sem þjófnaðurinn átti sér stað.
Úr verslun Bónuss í Skipholti þar sem þjófnaðurinn átti sér stað. vísir/ktd

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til vegna búðarþjófnaðar í Skipholti um klukkan eitt í dag. Þar hafði maður látið greipar sópa í Bónus en var stöðvaður af starfsfólki verslunarinnar, sem hringdi eftir lögregluaðstoð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hljóp maðurinn á brott og starfsfólk á eftir honum. Þegar út úr versluninni var komið á hann að hafa gripið nærliggjandi grjót og ógnað fylgdarmönnum sínum.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir lögregluna hafa verið fljóta á staðinn. Henni hafi þannig tekist að stöðva manninn sem á ekki að hafa veitt lögreglu mótspyrnu. Málið hafi verið leyst á vettvangi og var því ekki talin þörf á að handtaka manninn eða færa hann á lögreglustöð til frekari yfirheyrslu.

Aðspurður hvers vegna sérsveitin hafi verið fenginn til að stöðva búðarþjóf segir Ásgeir að útkallsbíll frá sérsveitinni hafi einfaldlega verið nálægt versluninni þegar útkallið barst. Hefði hefðbundinn lögreglubíll verið í grenndinni hefði hann verið boðaður á vettvang. Sérsveitin sé hluti af almennu löggæsluskipulagi landsins og því þurfi það ekki að vera til marks um alvarleika útkallsins að sérsveitin sé send á staðinn.

Þær upplýsingar fengust jafnframt frá ríkislögreglustjóra að sérsveitin hafi vissulega verið fengin til að aðstoða í Skipholti í dag, án þess þó að vopnbúast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×