Fótbolti

Ísak skoraði í öðru tapi Norrköping í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Bergmann skoraði glæsilegt mark gegn Helsingborg.
Ísak Bergmann skoraði glæsilegt mark gegn Helsingborg. GETTY/PIARAS Ó MÍDHEACH

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði annað mark Norrköping þegar liðið tapaði fyrir Helsingborg, 3-2, í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Þetta var annað tap Norrköping í röð og fjórði leikur liðsins án sigurs í röð. Norrköping er í 3. sæti sænsku deildarinnar með 25 stig, sex stigum á eftir toppliði Malmö.

Norrköping komst yfir með marki Alexanders Fransson strax á 3. mínútu. Anthony van den Hurk jafnaði úr vítaspyrnu sex mínútum síðar.

Á 22. mínútu fékk Helsingborg aðra vítaspyrnu eftir að dómarinn mat það sem svo að Ísak hefði handleikið boltann innan teigs. Isak Pettersson varði spyrnu Van Den Hurk en hann fylgdi á eftir og kom heimamönnum yfir.

Á 62. mínútu jafnaði Ísak í 2-2 með frábæru skoti í slá og inn eftir sendingu frá Fransson. Þetta var annað mark Skagamannsins í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Þegar tíu mínútur voru til leiksloka skoraði Rasmus Jonsson sigurmark Helsingborg. Þetta var aðeins annar sigur liðsins á timabilinu.

Ísak og félagar í Norrköping þurfa hins vegar að rífa sig upp eftir að hafa aðeins fengið tvö stig í síðustu fjórum deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×