Íslenski boltinn

„Búið að vera mikið af hauskúpuleikjum hjá KA“

Anton Ingi Leifsson skrifar
KA-menn eru í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar.
KA-menn eru í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar. ka.is/Egill Bjarni Friðjónsson

Tómas Ingi Tómasson, sparkspekingur, er ekki hrifinn af því hversu hægt KA spilar og vill að þeir verði beinskeyttari.

KA var á meðal þeirra liða sem voru til umræðu í Pepsi Max stúkunni á mánudagskvöldið er þeir Guðmundur Benediktsson, Tómas Ingi og Atli Viðar Björnsson fóru yfir neðri sex lið deildarinnar.

Allt útlit er fyrir að fótboltinn fari aftur á stað á föstudagskvöldið en Arnar Grétarsson tók við KA rétt áður en hléið skall á.

„Ég held að Addi [Arnar Grétarsson] sé alveg sáttur að fá að vera með liðið í tvær vikur án þess að vera með leik og geta drillað það sem hann vill,“ sagði Tómas Ingi.

„Hann segist vilja spila fótbolta og mig langar rosalega að sjá KA spila fótbolta. Þetta er búið að vera mikið af hauskúpuleikjum hjá þeim.“

Atli Viðar segir að það vanti hraða í lið KA og segir að flestir leikmenn liðsins vilji frekar fá boltann í fætur en að stinga sér inn fyrir.

„Mér hefur fundist að eftir að Nökkvi meiddist og Ásgeir hefur ekki komist á þann stað sem við vitum að býr í honum, að þá eru þeir rosalega lengi upp völlinn. Það vantar einhverja sprengju og einhvern sem getur ógnað inn fyrir,“ sagði Atli Viðar.

„Þeir verða að fara sækja aðeins hraðar. Þetta er svefnmeðal að horfa á þetta lið spila oft boltanum. Því miður,“ bætti Tómas Ingi við.

Alla umræðuna um KA má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Umræða um KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×