Erlent

Bannaði lögregluþjónum sínum að vera með grímur

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Flórída með grímur.
Íbúar Flórída með grímur. Getty/Paul Hennessy

Billy Woods, fógeti Marionsýslu í Flórída í Bandaríkjunum, bannaði í gær lögregluþjónum sínum að bera grímur við störf sín. Hann bannaði sömuleiðis öllum þeim sem koma á lögreglustöð hans að vera með grímur. Í gær dóu einnig fleiri íbúar Flórída úr Covid-19 en höfðu gert áður.

277 dóu í ríkinu í gær og þar af þrettán í Marionsýslu. Alls hafa tæplega 550 þúsund manns greinst með sjúkdóminn í Flórída, samkvæmt frétt Washongton Post.

Í tölvupósti sem Woods sendi á starfsmenn sína hélt hann því fram að hægt væri að deila um notkun gríma en staðreyndin væri sú að jafn margir sérfræðingar sögðu að fólk ætti að vera með grímur og að fólk ætti ekki að vera með grímur.

Grímur hafa orðið að pólitísku bitbeini í Bandaríkjunum og er mikill heift í þeim deilum sem myndast hafa varðandi grímur. Til marks um það réðst par á sautján ára starfsmann skemmtigarðs í Pennsylvania á sunnudaginn eftir að hann bað þau um að vera með grímur.

Kjálki drengsins fór úr lið við barsmíðarnar og hann þurfti að fara í skurðaðgerð. 

Staðreyndin er þó sú að í Bandaríkjunum segir meirihluti sérfræðigna og heilbrigðisstarfsmanna að grímur og félagsforðun séu lykillinn að því að sporna gegn útbreiðslu nýju kórónuveirunnar, sem hefur leikið Bandaríkin grátt á undanförnum mánuðum.

Í póstinum sagði fógetinn einnig að fólk mætti ekki vera með grímur á lögreglustöðinni vegna þess „haturs“ sem lögregluþjónar standa frammi fyrir í Bandaríkjunum um þessar mundir. Því væri nauðsynlegt að geta borið kennsl á alla sem kæmu á stöðina. Woods hélt því einnig fram að starfsfólk hans hefði ekki borið grímur hingað til og það hefði ekki komið að sök.

Washington Post vísar þó í héraðsmiðil sem segir minnst 200 fangar og 36 starfsmenn í fangelsi sýslunnar, sem Woods rekur, hafi greinst með Covid-19. Þar að auki dó hjúkrunarfræðingur fangelsisins vegna sjúkdómsins.

Í enda póstsins sagði fógetinn að hann byggist við því að skipunum sínum yrði framfylgt. Annars yrði viðkomandi refsað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×