Enski boltinn

Manchester City að „stela“ Thiago af Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola náði í Thiago Alcantara til Bayern München sumarið 2013. Þeir voru þá báðir nýir hjá þýska stórliðinu.
Pep Guardiola náði í Thiago Alcantara til Bayern München sumarið 2013. Þeir voru þá báðir nýir hjá þýska stórliðinu. EPA/MARC MUELLER

Spænski miðjumaðurinn Thiago Alcantara hjá Bayern München hefur verið orðaður við Liverpool í allt sumar en núna gæti henna endað hjá aðalkeppinautunum í Manchester City.

Thiago Alcantara hefur talað um það sjálfur að hann vilji spila fyrir Jürgen Klopp og fyrir Liverpool. Bayern München vill hins vegar fá meira fyrir leikmanninn en Liverpool er tilbúið að borga.

Þýska blaðið SportBild slær því upp að Manchester City ætli að skella sér inn í kapphlaupið um Thiago Alcantara og reyna að „stela“ leikmanninum af Englandsmeisturunum.

Það sem meira er að Manchester City er tilbúið að borga meira fyrir Thiago en Liverpool.

Liverpool vill ekki borga meira en 30 milljónir punda fyrir leikmanninn en Bayern vill aðeins meira.

Nú er að sjá hvort City orðrómurinn muni fá Liverpool til að borga meira eða hvort að Thiago Alcantara fari enn á ný til Pep Guardiola.

Pep Guardiola gaf Thiago Alcantara fyrsta tækifærið sitt hjá Barcelona og sótti hann síðan til Bayern München árið 2013. Nú gætu þeir hist hjá þriðja félaginu.

SportBild segir að nú hugsi Guardiola sér að hinn 29 ára gamli Thiago komi í staðinn fyrir David Silva sem er á förum frá City eftir magnaðan tíma þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×