Íslenski boltinn

„Ólafur Karl er geysilega sterk viðbót og svo setur hann viðmið í klæðaburði“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Karl Finsen í skrautlegri peysu.
Ólafur Karl Finsen í skrautlegri peysu. mynd/skjáskot af facebook-síðu fh

Logi Ólafsson, annar þjálfara FH, kveðst ánægður með að vera búinn að fá Ólaf Karl Finsen til liðsins. Valur lánaði hann til FH út tímabilið.

Logi þekkir Ólaf Karl vel en hann þjálfaði hann bæði hjá Selfossi og Stjörnunni og hlakkar til að vinna aftur með honum.

„Ólafur Karl er ólíkindatól í knattspyrnu. Hann getur tekið upp á skemmtilegum hlutum og það þarf í sjálfu sér ekki að útskýra það fyrir áhugamönnum um fótbolta hvað Ólafur Karl getur,“ sagði Logi í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2. 

„Hann er geysilega sterk viðbót fyrir okkur og svo setur hann ákveðin viðmið í klæðaburði. Hann er afskaplega sérstakur í klæðaburði.“

FH sækir Íslandsmeistara KR heim í Pepsi Max-deild karla á morgun. Þetta er fyrsti leikur liðanna eftir hléið sem var gert vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þetta verður þétt núna og það þarf að vinna upp glataðan tíma. Í fyrstu viðureign eftir þetta hlé fáum við mjög erfiðan andstæðing,“ sagði Logi.

„Öll óvissa fer í taugarnar á mönnum en við höfum æft vel og fylgt þeim reglum sem settar hafa verið. Við teljum að við höfum náð að bæta okkar líkamlega ástand á þessum tíma,“ bætti þjálfarinn þrautreyndi við.

Leikur KR og FH hefst klukkan 18:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Klippa: Sportpakkinn - Logi um Ólaf Karl og framhaldið hjá FH

Tengdar fréttir

Ólafur Karl lánaður til FH

Valur hefur lánað Ólaf Karl Finsen til FH og mun hann leika með Fimleikafélaginu út tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×