Körfubolti

Orlando kom öllum á óvart og Heat lagði Pacers

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var hart barist í Disney World í kvöld.
Það var hart barist í Disney World í kvöld. Kim Klement-Pool/Getty Images

Tveimur af fjórum leikjum kvöldsins, og næturinnar, í úrslitakeppni NBA-deildarinnar er nú lokið. Lauk þeim báðum með 12 stiga sigrum.

Orlando kom öllum á óvart og lagði Milwaukee Bucks af velli, 122-110. Þá vann Miami Heat góðan sigur á Indana Pacers, 113-101.

Talið var nær öruggt að Giannis Antetokounmpo og félagar í Milwaukee Bucks myndu jarða Orlando Magic enda þarna liðin í 1. og 8. sæti Austurdeildarinnar að mætast. Orlando spilaði hins vegar frábærlega og verðskulduðu sigurinn svo sannarlega.

Orlando var tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta og var það enn staðan þegar flautað var til hálfleiks, staðan þá 62-52. Í þeim síðara var það sama upp á teningnum og tókst Orlando að landa einstaklega óvæntum sigir í fyrsta leik í rimmu félaganna.

Lokatölur 122-110 og Orlandi þar af leiðandi komið í 1-0 en vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram í næstu umferð úrslitakeppninnar.

Nikola Vucevic var stigahæstur hjá Orlando með 35 stig en hann tók einnig 14 fráköst. Alls voru sex leikmenn liðsins með tíu stig eða meira. Hjá Bucks var Giannis stiga og frákastahæstur. Hann skoraði 31 stig og tók 17 fráköst.

Miami Heat lagði svo Indiana Pacers af velli 113-101. Sá leikur var töluvert kaflaskiptari en Indiana byrjuðu betur en voru samt sem áður undir í hálfleik. Aðeins einu stigi munaði á liðunum fyrir síðasta fjórðung leiksins en þar voru Heat mun sterkari og unnu eins og áður sagði 12 stiga sigur.

Jimmy Butler var að venju stigahæstur í liði Heat með 28 stig. Goran Dragic kom þar á eftir og þá var Bam Adebayo með tvöfalda tvennu, 17 stig og tíu fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×