Fótbolti

Neymar verður ekki refsað og má því spila úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar sést hér ber að ofan og með Leipzig-treyjuna sem hann fékk í skiptunum.
Neymar sést hér ber að ofan og með Leipzig-treyjuna sem hann fékk í skiptunum. EPA-EFE/Manu Fernandez

Reglurnar hjá Knattspyrnusambandi Evrópu um að leikmenn megi ekki skiptast á treyjum eftir leiki í Evrópukeppnum og með landsliðum eru í raun ekki reglur heldur aðeins tilmæli.

Þetta kom endanlega í ljós eftir að UEFA ákvað að aðhafast ekki neitt í því að Brasilíumaðurinn Neymar gerðist sekur um að skiptast á treyjum eftir undanúrslitaleik PSG og Leipzig í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið.

Eftir 3-0 sigur PSG á Leipzig þá skiptist Neymar á treyjum við Marcel Halstenberg hjá Leipzig en enginn annar leikmaður franska liðsins fór úr sinni keppnistreyju inn á vellinum.

Margir erlendir fjölmiðlar fóru strax að tala um að Neymar þyrfti annað hvort að fara í eins leiks bann eða í tólf daga sóttkví.

Neymar fær hins vegar að spila langþráðan úrslitaleik í Meistaradeildinni með liði Paris Saint Germain en PSG eyddi meðal annars öllum milljörðunum í hann til þess einmitt að hann myndi hjálpa liðinu að vinna loksins Meistaradeildina.

Í umræddum sóttvarnarreglum kemur fram að þar séu leikmönnum ráðlagt að halda sig frá því að skiptast á keppnistreyjum. Þar kemur líka fram að fylgi leikmenn ekki tilmælum um sóttvarnir þá gæti það þýtt refsingu eins og önnur agabrot.

Lykilatriðið er aftur á móti að reglan um bann við treyjuskiptum er aðeins tilmæli en ekki bein regla. Kannski svipað og reglan með því að hrækja ekki á völlinn sem leikmenn virðast brjóta við hvert tækifæri.

Neymar sleppur því með skrekkinn og fær að spila þennan úrslitaleik á móti Bayern München. Fótboltaáhugafólk gleðst örugglega yfir því enda vilja allir sjá bestu leikmennina spila á sunnudaginn kemur.

Miðað við formið á Bayern liðinu þá þarf PSG líka á öllum sínum mönnum að halda og gott betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×