Viðskipti innlent

Ekki að fara á límingunum þó krónan sé að veikjast

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er ekki á sjá á þessum krónum að þær séu veikari en oft áður.
Það er ekki á sjá á þessum krónum að þær séu veikari en oft áður. Vísir/vilhelm
Gengi íslensku krónunnar hefur veikst nokkuð að undanförnu. Er nú svo komið að gengisvísitala krónunnar hefur ekki verið hærri síðan árið 2016. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segist þó ekki vera að fara á límingunum út af þessu - ekki frekari en Seðlabankinn, sem Jón Bjarki telur að sé ekkert sérstaklega mótfallinn veikari krónu.

Hann segir það mat sérfræðinga á gjaldeyrismarkaði að flæðið sé nokkuð einhliða þessa dagana. „Þeir sem kaupa gjaldeyri eru svolítið einráðir á markaðnum, það er eins og þeir sem eru að selja bíði frekar átekta.“

Það sé hins vegar ekkert nýtt, markaðurinn hérlendis er lítill og það þurfi því ekki háar upphæðir til að hafa áhrif á gengi krónunnar til skamms tíma.

Þrátt fyrir allt segist Jón Bjarki skilja það sem svo að veltan hafi ekki verði sérstaklega mikil í gær, þegar rautt var á öllum tölum í Kauphöllinni. „Það er ekki eins og það séu einhverjir stórir straumar af gjaldeyri út úr landinu,“ segir Jón Bjarki. Þess í stað hafi straumurinn verið jafn og þéttur síðustu vikur.

Ótrúlega lítil sveifla í fyrra

Miðað við allt sem á gekk í fyrra, eins og fall WOW air og loðnubrestur, segir Jón Bjarki það hálf ótrúlegt hvað gengi krónunnar haggaðist lítið á síðasta ári. „Hún sveiflaðist á þröngu bili allt síðasta ár. Það er ekki fyrr en núna á síðustu vikum sem þessi ótíðindi eru farin að endurspeglast í genginu.“

Aðspurður um hvort Seðlabankinn geti gripið í taumana til að varna frekari gengislækkun segir Jón Bjarki svo vera. Forsvarsmenn Seðlabankans hafi þannig sagst ætla að skerast í leikinn ef fjármagnsflæðið verður einhliða. Þó svo að bankinn hafi látið að sér kveða í þessum efnum hafi hann ekki verið stórtækur á markaði nema þegar sveiflurnar hafa verið miklar.

„Hins vegar held ég að Seðlabankinn sé ekkert afhuga því að sjá eitthvað veikari krónu. Einhverjir meðlimir peningastefnunefndar hafa sagt að það þyrfti heldur lægra gengi til þess að koma hagkerfinu á réttan kjöl aftur, eftir þá skelli sem við höfum fengið á okkur undanfarið,“ segir Jón Bjarki.

Ferðamenn kættust þegar krónan veiktist síðla árs 2018.Vísir/vilhelm

Veikari króna, kátari ferðamenn

Lægra gengi myndi þannig koma ferðaþjónustunni að góðum notum enda atvinnugrein sem er næm fyrir gengisbreytingum. Lægri króna skili sér í hamingjusamari ferðamönnum. Gengisvísitala krónunnar, sem er um 189,8 í dag, sé þannig líklega „í grennd“ við það sem forsvarsmenn Seðlabankans vilja hafa vísitöluna, að mati Jóns Bjarka.

Þó svo að lægra gengi myndi þýða hærra verð á innfluttum vörum segist Jón Bjarki bjartsýnn á að það myndi ekki leiða til óhóflegs verðbólguskots. Þegar gengi krónunnar féll um 10 prósent haustið 2018 hafi verðbólgan vissulega aukist en hjaðnað fljótt aftur.

„Það gerir mann svolítið bjartsýnan um að þrátt fyrir að það verði einhver veiking núna að það þýði ekki að verðbólgan sé að fara út og suður og við séum að fara aftur í gömlu tímana. Við virðumst hafa betri stjórn á henni,“ segir Jón Bjarki og bætir við að lítil verðbólga erlendis spili þar að auki inn í myndina.

Jafnframt sé skörp verðlækkun á olíu til þess fallin að draga úr framleiðslukostnaði og minnka verðbólguþrýsting. Jón Bjarki minnir þó að uppistaðan í olíuverði hérlendis séu opinber gjöld og því þurfi myndarlegar sveiflur til að hafa afgerandi áhrif á verðið við bensíndæluna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×