Viðskipti innlent

Rafrettuvefsíður fullar af ólöglegum varningi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjölmargar athugasemdir Neytendastofu á síðustu misserum benda til að betra utanumhald þurfi um sölu rafrettna á Íslandi.
Fjölmargar athugasemdir Neytendastofu á síðustu misserum benda til að betra utanumhald þurfi um sölu rafrettna á Íslandi. Vísir/vilhelm

Á sjöunda hundrað ólöglegra rafrettna og fylgihluta mátti finna í íslenskum vefverslunum. Aukinheldur uppfyllti engin vefsíðnanna nauðsynlegar reglur um upplýsingagjöf.

Neytendastofa segir þetta meðal niðurstaðna sinna eftir könnun á sölu rafrettna hjá átta vefsíðum. Samhliða segist stofnunin hafa skoðað hvort veittar væru upplýsingar um þjónustuveitanda og rétt neytenda til að falla frá samningi. Í suttu máli reyndust allar vefsíðurnar óviðunandi.

Þar hafi mátt finna alls 652 ólöglegar vörur, án þess þó að Neytendastofa tiltaki þær sérstaklega í orðsendingu sinni. Stofnunin hefur gert rassíu í rafrettumálum að undanförnu og hafa fjölmörg fyrirtæki fengið skömm í hattinn frá Neytendastofu, til að mynda söluturninn Drekinn á Njálsgötu.

Fyrrnefndar vefsíður reyndust allar með ófullnægjandi upplýsingar um rétt neytenda í fjarsölu. „Ýmist vantaði upplýsingar eða veittar voru rangar upplýsingar um 14 daga skilarétt á vörum sem keyptar eru í fjarsölu. Þá veitti aðeins ein vefsíða nægar upplýsingar um þjónustuveitanda svo sem kennitölu, heimilisfang, netfang og vircðisaukaskattsnúmer,“ segir Neytendastofa.

Stofnunin minnir á lög um rafrettur og áfyllingar, sem nálgast má hér, sem kveða meðal annars á um tilkynningaskyldu til Neytendastofu. Nánari upplýsingar um skylduna eru hér en í fyrrnefndri orðsendingu segir:

„Tilkynningum þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á öryggi varanna eins og t.d. innihaldslýsing og útblástursskýrslur. Það má t.d. ekki selja á Íslandi vökva sem innihalda vítamín eða koffín. Umbúðir mega ekki höfða til barna og verða að vera barnheldar.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×