Fótbolti

Sara og Evrópumeistararnir sungu Whitney Houston-lag í fagnaðarlátunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk fagnaði marki sínu gegn Wolfsburg mjög hóflega af virðingu við sína gömlu liðsfélaga.
Sara Björk fagnaði marki sínu gegn Wolfsburg mjög hóflega af virðingu við sína gömlu liðsfélaga. epa/Gabriel Bouys

Leikmenn Lyon fögnuðu að vonum vel og innilega eftir að liðið vann sinn sjöunda Evrópumeistaratitil í gær. Frönsku meistararnir unnu þá Þýskalandsmeistara Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, 3-1.

Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði þriðja og síðasta mark Lyon í leiknum, gegn sínum gömlu félögum. Hún er fyrsta íslenska fótboltakonan sem verður Evrópumeistari.

Í rútunni á leiðinni frá Anoeta vellinum í San Sebastián í Baskalandi á Spáni í gær sungu leikmenn Lyon sigursöngva.

Meðal laga sem varð fyrir valinu var slagarinn „I Wanna Dance with Somebody“ sem Whitney Houston gerði vinsælt á 9. áratug síðustu aldar. Útgáfu Evrópumeistara Lyon af laginu má sjá hér fyrir neðan.

Sara söng einmitt sama lag í nýliðavígavígslunni hjá Lyon ásamt hinni áströlsku Ellie Carpenter.

Lyon hefur unnið Meistaradeildina fimm sinnum í röð og sjö sinnum alls. Ekkert lið hefur unnið Meistaradeildina oftar en Lyon.

Sara gulltryggði sigur Lyon í leiknum gegn Wolfsburg í gær þegar hún skoraði þriðja mark leiksins tveimur mínútum fyrir leikslok. Markið má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Sara Björk skoraði og Lyon er Evrópu­meistari

Sara Björk Gunnarsdóttir er Evrópumeistari í fyrsta sinn eftir að Lyon vann 3-1 sigur á Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld. Sara Björk skoraði í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×